Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ósáttur við þorraannál og flytur úr bænum
Mánudagur 20. janúar 2014 kl. 21:44

Ósáttur við þorraannál og flytur úr bænum

Hannes Friðriksson er ósáttur við þorrablótsannál Keflavíkur, sem fluttur var á þorrablóti Keflavíkur um nýliðna helgi. Í grein sem Hannes birtir í kvöld segist hann vera útmálaður neikvæðasti maður Reykjanesbæjar ásamt Guðbrandi Einarssyni.

„Grín er gott í hófi en mikilvægt að hver sá sem með gamanmál fer gæti sín, því oft er það þannig að fleiri en þeir sem gert er grín að verða fyrir barðinu,“ segir Hannes í grein sinni á vf.is.

Síðar í sömu grein segir hann: „Samfélag okkar hér í Reykjanesbæ þykir mér mjög vænt um, hér býr gott og dugmikið og að langmestu leyti sanngjarnt fólk. Fyrir það hef ég viljað berjast. Og gert. Verið til í að láta ýmislegt yfir mig ganga í þeirri baráttu. En allt á sér enda. Og sá endi fann sér stað í þorraannál Íþróttabandalags Keflavíkur, þar sem þó nokkur fjöldi félaga minna var viðstaddur og ætlast til að þeir myndu hlægja að innslagi þar sem ég og Guðbrandur Einarsson vorm útmálaðir sem neikvæðustu menn Reykjanesbæjar sökum greinaskrifa okkar“.

Þá bætir Hannes við: „Ég hef því ákveðið í samráði við eiginkonu mína að svo fljótt sem verða má munum við flytja burt úr bænum um leið og við höfum sagt okkur frá öllum þeim verkefnum við höfum talið okkur vinna í almannaþágu. Um leið og ég þakka kærlega þeim fjölmörgu er stutt hafa mig í gegnum árin, þá á ég þá ósk heitasta að einhvern tíma muni hér rísa upp samfélag sem getur tekist á við gagnrýna umræðu, án þess að ráðist sé í manninn, heldur málefnið. Fyrst þá mun Reykjanesbæ farnast vel. Takk fyrir mig“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024