Ósáttir Grindvíkingar fastir í ófærð á leið til Grindavíkur
Grindvíkingar hafa margir ákveðið að snúa við á leið sinni til Grindavíkur um Krýsuvíkur- og Suðurstrandarveg. Ástæðan er slæmt skyggni og ófærð. Bílar eru fastir og umferð gengur hægt.
„Mamma og pabbi eru að snúa við á Krísuvíkurleiðinni. Hún er bara fyrir vel búna jeppa. Algjörlega galið!,“ segir Grindvíkingur um ástandið.
Núna þarf einhver að fara að taka ábyrgð og girða sig almennilega í brók
Rannveig Jónína Guðmundsdóttir, íbúi í Grindavík, fjallar einnig um málið í færslu nú í morgun.
„Ég hef lagt það í vana minn að vera málefnaleg og annað slíkt hér á Facebook og hneykslast á nettröllunum en nú er mér allri lokið!
Okkur er beint Krýsuvíkurleiðina til þess að komast heim um hávetur, vegurinn er nánast ófær, bílar fastir og skafrenningur. Þetta á að vera öruggari leið segja Almannavarnir og skoða bara Excel skjalið.
Við erum á 50 km hraða á Suðurstrandarveginum og um tíma vorum við á 15 km hraða um Krýsuvíkurveginn. Fyrir óvant fólk í akstri eða eldra fólk er þetta ekki boðlegt! Við erum í alls konar ástandi eftir síðustu vikur og þetta getur hreinlega hættulegt fyrir fólk sem er ennþá í sjokki og ekki í andlegu eða líkamlegu standi.
Núna þarf einhver að fara að taka ábyrgð og girða sig almennilega í brók áður en að slys verða á fólki á leiðinni heim til sín og veit ekkert hvað bíður þeirra á áfangastað, því húsin voru án rafmagns og hita upp í tíu daga á tímabili!,“ skrifar Rannveig Jónína.
Lofað greiðfærum vegi
Grindvíkingum var í gærkvöldi lofað greiðfærum leiðum til og frá Grindavík. Vegagerðin myndi leggja sérstaka áherslu á þessar leiðir.
„Mikil samvinna er við Vegagerðina sem tryggir að akstursleiðir verði sem öruggastar fyrir umferð, ekki síst í þessari vetrarfærð. Einnig er búið að mæla vegina með jarðsjá og hefur ekkert óvænt komið í ljós á þeim akstursvegum sem íbúum er bent á að aka um,“ sögðu Almannavarnir í svari við fyrirspurn um hvers vegna fólk þyrfti að fara um Krýsuvíkurveg í vetrarfærð.
Almannavarnir hafa boðað tilkynningu á Facebook og vef Grindavíkurbæjar.