Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ósátt við tjaldstæði og afnám umönnunargreiðslna
Miðvikudagur 17. desember 2014 kl. 09:15

Ósátt við tjaldstæði og afnám umönnunargreiðslna

Ný fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar lögð fram

 „Ljóst er að ákvörðun meirihlutans um að fella niður umönnunargreiðslur mun setja áætlanir fjölda fjölskyldna í uppnám. Mörg ung börn munu því missa af dýrmætum tíma með foreldrum sínum,“ sagði Magnea Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem gagnrýndi nýja fjárhagsáætlun sem meirihlutinn í Reykjanesbæ lagði fram á fundi bæjarstjórnar í gær. Það kom Magneu og sjálfstæðismönnum verulega á óvart að  í nýframframkvæmdum er gert ráð fyrir 25 milljónum króna vegna tjaldstæðis. Á sama tíma og dregið er úr fjármagni til barnafjölskyldna og umönnunargreiðslur eru felldar niður.

Sjálfstæðismenn lögðu til að hætt verði við afnám umönnunargreiðslna. Einnig lögðu þeir til að ekki verði farið í framkvæmdir við nýtt tjaldstæði. Lagt var til að tillögunum verði vísað til bæjarráðs og var það samþykkt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Magnea sagði ennfremur að um stefnubreytingu væri að ræða hjá Samfylkingunni, þar sem flokkurinn talaði í stefnuskrá sinni að brúa ætti bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum aðgerðum. Ásamt því að hækka umönnunargreiðslur og efla samstarf og samveru kynslóðanna.

„Meirihlutinn vill því verja 25 milljónum króna í tjaldstæði sem nýtist ekki íbúum bæjarins, heldur innlendum og erlendum ferðamönnum,  á kostnað annarra verkefna sem hljóta að vera meira aðkallandi á þessum tíma. Við skulum heldur ekki gleyma því að laun starfsfólks Reykjanesbæjar hafa verið skert umtalsvert. Við sjálfstæðismenn erum sammála því að huga að uppbyggingu tjaldstæðis, en árið 2015 er alls ekki rétti tíminn fyrir slíkt. Fjármunina sem eru um 10 prósent af heildarframkvæmdafé ársins hlýtur að mega spara eða verja með skynsamlegri hætti og á þann hátt að fjármagnið nýtist íbúum Reykjanesbæjar,“ sagði Magnea.

Meirihlutinn svaraði þessari gagnrýni á þann hátt að hvatagreiðslur myndu hækka í kjölfar þess að umönnunargreiðslur víki frá. Eins kom það Friðjóni Einarssyni oddvita Samfylkingar á óvart að Magnea bæri saman tjaldstæði og umönnunargreiðslur.