Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ósátt við lokun VÍS í Reykjanesbæ
Mánudagur 24. september 2018 kl. 14:02

Ósátt við lokun VÍS í Reykjanesbæ

- „Persónuleg þjónusta er það sem ræður miklu um það hvar maður vill eiga viðskipti“

Ákvörðun VÍS, Vátryggingafélags Íslands, um að loka m.a. skrifstofu sinni í Keflavík og sameina starfsemi hennar skrifstofu í Reykjavík hefur fallið í grýttan jarðveg hér suður með sjó.
 
Landssamband íslenskra verzlunarmanna, LÍV, harmar þá ákvörðun VÍS að loka átta þjónustuskrifstofum á landsbyggðinni. Fjöldi einstaklinga missi með þessu vinnu sína eða þurfi að sækja vinnu landsvæða á milli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu. 
 
Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, er formaður LÍV. Í samtali við Víkurfréttir segist hann ekki sjá nokkurt hagræði í því að reka alla starfsemi VÍS í rándýru húsnæði í Reykjavík.
 
„Ég skil ekki þessa ákvörðun VÍS að loka skrifstofunni hér, á svæði sem telur 25 þúsund manns. Sé ekki að það sé nokkurt hagræði í því að reka alla starfsemi í rándýru húsnæði í Reykjavík og er ekki sáttur við það ef að aukin tæknivæðing verður til þess að fækka störfum utan Reykjavíkur. Persónuleg þjónusta er það sem ræður miklu um það hvar maður vill eiga viðskipti,“ segir Guðbrandur. 
 
„Ég sjálfur hef verið í viðskiptum við VÍS í áratugi, fyrst og fremst vegna góðrar persónulegrar þjónustu. Ég mun, verði þetta að veruleika, endurskoða það,“ bætir hann við.
 
Forsvarsmenn VÍS tilkynntu í síðustu viku að sameina ætti þjónustuskrifstofur fyrirtækisins víðsvegar um landið. Skrifstofunum fækkar við þetta úr þrettán í sex. Á vef fyrirtækisins segir að þetta sé gert í samræmi við nýja framtíðarsýn fyrirtækisins um að verða stafrænt þjónustufyrirtæki. Breytingarnar taka gildi 1. október næstkomandi. 
 
Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingiskona Framsóknarflokks, er ein fjölmargra sem tjáð hafa sig um fyrirhugaða lokun VÍS á skrifstofunni í Reykjanesbæ. Í færslu á fésbókinni segir Silja Dögg að ástæðan fyrir því að hún og eiginmaður hennar hafi í mörg ár átt í viðskiptum við VÍS vera einstaka þjónustulund starfsmanna VÍS í Reykjanesbæ.
 
„Sími og heimasíða koma ekki í staðinn fyrir það. Því höfum við tilkynnt að við ætlum ekki að kaupa þjónustu áfram af VÍS. Og ég hreinlega skil ekki að ekki sé grundvöllur fyrir starfsstöð í ríflega 20 þús. manna samfélagi,“ skrifar Silja Dögg.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024