Ósamstaða í Grindavík um bókun vegna Almannavarna
Hvaða Grindvíkingur var hafður með í ráðum þegar skipulagið var búið til?
„Mér finnst mikilvægt að eiga gott samstarf við yfirvöld, þess vegna vildi ég ekki setja nafn mitt undir þessa bókun,“ segir Ásrún Helga Kristinsdóttir, oddviti Framsóknar og forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, en athygli vakti þegar einungis þrír úr bæjarstjórn lögðu fram bókun varðandi framkvæmd Almannavarna á verðmætabjörgun Grindvíkinga.
Bókunin er eftirfarandi:
Bókun
Undirritaðir skora á Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, lögreglustjórann á Suðurnesjum og Ríkislögreglustjóra að endurskoða afstöðu sína varðandi gildandi skipulag og opna sem fyrst fyrir umferð um allar leiðir til og frá Grindavík, fyrir íbúa og atvinnulíf. Þá verður aftur að taka upp opnanir sem gilda frá kl. 10:00 til 17:00 eða 19:00.
Hjálmar Hallgrímsson, fulltrúi D-lista, Gunnar Már Gunnarsson, fulltrúi M-lista og Helga Dís Jakobsdóttir, fulltrúi U-lista.
Ásrún var nýkomin frá Grindavík úr verðmætabjörgun þegar blaðamaður náði tali af henni. „Ég er búin að vera upptekin í verðmætabjörgun í Grindavík í dag svo ég heyrði ekki neinar fréttir en mér var sagt frá umræðunni. Ég skil að það sé fréttnæmt að ég og þrír aðrir í bæjarstjórninni höfum ekki sett nafn okkar á þessa bókun en fyrir mér er þetta ósköp einfalt. Mér er mikið í mun að eiga gott samtal og góð samskipti við yfirvöld, t.d. Almannavarnir.
Fyrri bókun bæjarstjórnar gekk út á að óska eftir samtali við aðila frá Almannavörnum. Í því samtali ætlum við að óska eftir rökum og koma óánægju á framfæri. Ég geri ekki lítið úr bókun þessarra þriggja bæjarfulltrúa enda er öllum frjálst að bóka en ég tel líklegt að samtalið sé gagnlegra. Við áttum góðan fund með Almannavörnum í síðustu viku og ítrekuðum m.a. mikilvægi þess að íbúar og fyrirtækjaeigendur kæmist inn í bæinn til að huga að eigum sínum og sækja verðmæti. Almannavarnir kynntu ekki fyrir okkur hvernig þessu yrði háttað, við vissum ekkert fyrr en á sunnudag eins og aðrir, þegar þetta var tilkynnt á fundi Almannavarna. Ég tel þetta samtal mun árangursríkari leið en umrædd bókun.
Ég, eins og aðrir Grindvíkingar, er ósátt með aksturleiðirnar og ég mun láta þá skoðun mín í ljós á næsta fundi með Almannavörnum og tel mig þannig best vera að gæta að hagsmunum Grindvíkinga. Það er óljóst hvaða aðili frá Grindavík kom að skipulaginu en það kom fram í máli aðila frá Almannavörnum að Grindvíkingur hafi verið með í ráðum. Það er t.d. eitt af því sem ég vil fá svör við, hvaða aðili þetta var.“
Vonandi hlusta Almannavarnir
Ásrún var meyr þegar hún lýsti upplifun sinni frá sínum degi í verðmætabjörguninni.
„Ég fer hálfpartinn að gráta þegar ég tala um þetta, samfélagið sem ég tilheyri er svo samheldið og gott. Á keyrslu minni á Krýsuvíkurleiðinni í morgun upplifði ég samfélagið mitt svo sterkt. Ég var á sendiferðabíl sem ég leigði, ég var að hleypa fólki fram úr og fólk veifaði, setti hazard-ljósin á og ég upplifði þvílíkan samhug. Þarna vorum við að fara heim, mörg að tæma heimilin okkar, þetta er svo ömurleg staða sem við erum í. Ég sá í dag að við Grindvíkingar erum traustsins verðir, það er hægt að treysta okkur fyrir að fara heim til okkar og eyða þar smá tíma og bjarga verðmætum. Ég sá hvergi neitt panik í gangi, allir voru rólegir og allt gekk vel. Mikil yfirvegun og ég upplifði alls ekki fullan bæ af fólki og leiðirnar inn og út úr bænum gengu mjög greiðlega. Vonandi munu Almannavarnir hlusta á okkar sjónarmið og endurskoða útfærslu, þá sérstaklega keyrsluleiðir inn og út úr bænum og almennt aðgengi. Þegar við vinnum saman aukast líkurnar á að fleiri séu sáttari við skipulagið,“ sagði Ásrún að lokum.