Ósætti vegna bæjarstjórabústaðar í Grindavík
Bryndís Gunnlaugsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur segir hagkvæmara að kaupa hús undir bæjarstjórann Róbert Ragnarson en að leigja það. Kristín María Birgisdóttir úr minnihluta telur hins vegar að bæjarstjórinn eigi að sjá um sín húsnæðismál sjálfur.
Í Morgunblaðinu í dag ef fjallað um áform bæjarstjórnar Grindavíkur um kaup á húsnæði fyrir Róbert Ragnarsson bæjarstjóra sem hingað til hefur verið leigt undir hann í bæjarfélaginu. Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins hafa ákveðið að kaupa húsnæði fyrir Róbert og það styðja Samfylkingarmenn. Listi Grindvíkinga mótmælir hins vegar þessum aðgerðum.
Þegar Róbert var ráðinn í síðustu bæjarstjórnarkosningum var ákveðið að útvega honum og fjölskyldu hans húsnæði í Grindavík og var tekið mið af því í samingum um launakjör. Við ráðningu bæjarstjóra hafi verið lagt upp með að leigja húsnæði, ekki kaupa, enda hafi bærinn átt hús fyrri bæjarstjóra og tapað miklu á því.
Hafa setið uppi með tvö hús
Á síðasta kjörtímabili var þáverandi bæjarstjóra sagt upp störfum í kjölfar meirihlutaskipta á miðju kjörtímabili. Bærinn þurfti þá, samkvæmt ákvæði í ráðningarsamningi, að kaupa hús bæjarstjórans á verði sem var langt yfir markaðsverði fasteigna í bænum. Það hús hefur síðan verið selt og að nota söluandvirðið til að kaupa nýtt bæjarstjórahús enda telja bæjarfulltrúar að erfitt sé að fá hentugt hús fyrir bæjarstjórann leigt út kjörtímabilið.
„Það er betra að fjárfesta í eign en leigu. Fjárfestinguna getum við fengið til baka, ef við þurfum, en leiga er aukinn rekstrarkostnaður, segir Bryndís Gunnlaugsdóttir forseti bæjarstjórnar við Morgunblaðið en Kristín María er ekki sammála henni.
„Við teljum að ekki eigi að auka rekstrarkostnað þegar verið er að spara í rekstri og skera niður útgjöld. Við vildum leita að leiguhúsnæði út kjörtímabilið og höfum fregnir af því að fólk kunni að vera tilbúið að leigja hús,“ segir Kristín María Birgisdóttir. „Hvað gerist ef Grindvíkingur verður bæjarstjóri? Á bæjarstjórahúsið þá að standa autt eða á bæjarstjórinn að flytja úr eigin húsi? Erum við að útiloka þann möguleika að Grindvíkingur setjist í bæjarstjórastólinn?“ spyr Kristín.
Reiknað er með því að tillaga um að kaupa tiltekið hús fyrir 32 milljónir sem bæjarstjórahús verði staðfest á næsta bæjarstjornarfundi.