Ósabotnavegur senn opnaður fyrir umferð
Nýr vegur á milli Hafna og Sandgerðis, svokallaður Ósabotnavegur, verður senn opnaður fyrir umferð en framkvæmdum er að ljúka við þann áfanga sem Vegagerðin bauð út í sumar. Fyrst um sinn verður eingöngu um malarveg að ræða en óvíst er hvort eða hvenær slitlag verður lagt á veginn.
Að sögn Jóhanns J. Bergmann, deildarstjóra hjá Vegagerðinni er verið að fínhefla veginn og ljúka við frágang samkvæmt þeim verkþætti sem ákveðið var að bjóða út að sinni. Frekari fjárveitingar fyrir klæðningu á veginn liggi ekki fyrir að svo stöddu.
Vegurinn verður því nokkuð grófur þar sem hann getur vart talist fullbúinn malarvegur því einungis verður um að ræða gróft undirlag til að byrja með.
Varðandi tvöföldun Reykjanesbrautarinnar segir Jóhann þær framkvæmdir ganga vel og verktakinn stefni á að ljúka verkinu á hausti komanda, nokkuð fyrrr en áætluð verklok kveða á um.
Mynd: Séð yfir Hafnir. Fjærst á myndinni sést til Ósabotna.