Öryggisíbúðum hugsanlega breytt í hjúkrunarrými
Komið hefur til tals að breyta auðum öryggisíbúðum á Nesvöllum tímabundið í hjúkrunarrúmi til að mæta brýnni þörf. Reykjanesbær, ásamt nokkrum öðrum sveitarfélögum, eiga í samningaviðræðum við ríkið um svokallaða leiguleið, þ.e. að þau byggi hjúkrarrými sem ríkið síðan leigi. Ekki er komin niðurstaða um leiguverð og sökum skorts á lánsfé í kreppunni er ljóst að ekki verður byggt nýtt hjúkrunarrúmi á næstunni.
Ríkið hefur hugmyndir um að fara leiguleiðina í nokkrum sveitarfélögum, þ.m.t. Reykjanesbæ. Sveitarfélögin byggja þá rýmið á eigin kostnað og leigja það ríkinu að uppfylltum stöðlum sem ríkið setur. Með því er talið að hægt væri að byggja upp hjúkrunarrými á mun skemmri tíma en þörfin er víða orðin mjög brýn. Í Reykjanesbæ eru 30 einstaklingar í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými.
Að sögn Böðvars Jónssonar, formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar, áttu fulltrúar þessara sveitarfélaga fund með fulltrúum ríkisins nú í desember. Á honum var tilgreind sú upphæð sem ríkið væri tilbúið að greiða á hvern fermetra fyrir hjúkrunarrými og var sú tala ekki í samræmi við þær hugmyndir sem fulltrúar sveitarfélaganna höfðu um leiguverð.
„Við sáum strax að þetta var alltof lágt og útilokað að byggja og reka hjúkrunarrými fyrir þá upphæð sem ríkið setti fram. Sveitarfélögin létu í framhaldinu reikna það út sameiginlega hvað þau þyrftu að fá í leigugreiðslur til geta byggt þetta með sómasamlegum hætti. Þær tölur voru sendar til ráðuneytisins í síðustu viku og eru þar til skoðunar,“ segir Böðvar.
Hann segir fulltrúa ríkisins hafa viðurkennt skekkju í sínum útreikningum og gefið til kynna sú tala sem upphaflega var nefnd yrði hækkuð Hins vegar sé óljóst hvort sú tala komi til með að nálgast það sem sveitarfélögin vilja fá. Nokkuð ber í milli, eða um þúsund krónur á fermetra.
Þær hugmyndir hafa komið fram að hluti þeirra öryggisíbúða sem ekki hefur tekist að selja og standa auðar á Nesvöllum, verði nýttar undir hjúkrunarrými. Böðvar segir að það yrði þá eingöngu til að mæta brýnni þörf þangað til búið væri að byggja nýtt húsnæði. „Við vitum að það er ekki hægt að fara af stað þar sem ekki fæst neitt fjármagn í verkefnið. Þegar það fæst tekur 18 – 20 mánuði að byggja húsnæðið. Til að þurfa ekki að bíða allan þann tíma finnst mér þessi hugmynd áhugaverð, að því að þörfin er brýn,“ sagði Böðvar Jónsson.