Öryggi íbúanna er ógnað
Stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ mótmælir harðlega niðurskurðarkröfu Heilbrigðisráðuneytisins gagnvart Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Undanfarin ár hefur ítrekað verið bent á þann mismun sem er í úthlutun fjármagns til sambærilegra stofnana á landinu. Þolmörkum er nú náð og ekki hægt að hagræða meira innan stofnunarinnar án þess að skerða þjónustu við íbúa svæðisins. Þetta segir í ályktun stjórnar Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ.
Á svæðinu búa 22 þúsund manns. Við búum við alþjóðaflugvöll og ljóst er að neyðaráætlun flugslysa og hópslysa breytist, og þar með skipulag almannavarna, segir jafnframt í ályktuninni.
Á Suðurnesjum er mesta atvinnuleysi á landinu. Það fólk sem missir nú vinnu sína á HSS mun ýmist fara á biðlaun eða atvinnuleysisbætur.
Stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ getur alls ekki sætt sig við að sparnaðarráðstafanir Heilbrigðisráðuneytisins bitni frekar á íbúum Suðurnesja en annarra landsmanna. Öryggi íbúanna er ógnað og ekkert sem bendir til að þetta sé raunverulegur sparnaður heldur aðeins tilfærsla á þjónustu og kostnaðarauki fyrir þá sem á þjónustunni þurfa að halda.
Í ljósi ofnagreindra athugasemda er það skýlaus krafa stjórnar fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ að eftirfarandi nái fram að ganga:
Greiðslur ríkisins til HSS taki mið af íbúafjölda og verði í samræmi við fjárveitingar til annarra sambærilegra heilbrigðisstofnana.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum taki yfir rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að auðvelda markvissan rekstur stofnunarinnar í samræmi við þarfir íbúanna á svæðinu.