Öryggi á heilsugæslu HSS ógnað vegna ófullnægjandi mönnunar
-Stefnumótun og stjórnun heilsugæslu HSS uppfyllir í mörgum tilfellum ekki kröfur um góða stjórnun og skýra stefnumótum
Mönnun lækna og hjúkrunarfræðinga er ónæg á Heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurensja og má lítið út af bera til að öryggi sé hugsanlega ógnað vegna ófullnægjandi mönnunar. Heilsugæslan sé augljóslega undirmönnuð af fagfólki, sérstaklega sé ástandið slæmt í geðteymi og meðferðarteymi barna, segir í niðurstöðum úttektar Embætti landslæknis um mat á gæðum og öryggi þjónustu Heilsugæslu HSS. Úttektin fór fram í apríl-maí á þessu ári.
Í skýrslunni kemur einnig fram að stefnumótun og stjórnun heilsugæslu HSS uppfylli í mörgum tilfellum ekki kröfur um góða stjórnun og skýra stefnumótun. Ekki sé um heildræna gæðastefnu að ræða á heilsugæslu HSS. Árangur heilsugæslunnar hvað varðar gæði og öryggi sé ekki sýnilegur, þjónustukönnun hafi ekki verið gerð síðan árið 2012 og gæðavísar ekki notaðir. Það sé því erfitt að meta gæði og öryggi þjónustunnar.
Heilsugæsla HSS hafi á að skipa hæfu starfsfólki sem geri sitt besta við erfiðar aðstæður. Aðgengi að læknisþjónustu á dagvinnutíma sé ábótavant, biðtími eftir tíma hjá sérstökum lækni langur. Hjúkrunarmóttaka sé hins vegar öflug á dagvinnutíma og sinni margvíslegum verkefnum. Um skipulagða þverfaglega teymisvinnu sé ekki að ræða.
Fjallað er um húsnæði stofnunarinnar í skýrslunni og fær ekki góða dóma: „Húsnæði heilsugæslu HSS í Keflavík er barn síns tíma og uppfyllir ekki nútímakröfur sem gerðar eru til húsnæðis heilsugæslustöðvar. Húsnæði heilsugæslunnar í Keflavík er barn síns tíma og mjög þröngt miðað við þá starfsemi sem þar fer fram. Skoðunar- og viðtalsherbergi eru lítil og ekki vistleg. Bráðamóttakan er sömuleiðis mjög lítil þótt hún taki við mörgum sjúklingum. Hins vegar er húsnæði og aðstaða ungbarnaeftirlits til fyrirmyndar. Eftir að hafa skoðað húsnæði heilsugæslunnar er nokkuð ljóst að það er takmarkandi þáttur í starfseminni. Annað á við um húsnæði heilsugæslunnar í Grindavík, það er mun rúmbetra en í Keflavík.“