Orlik verður rifinn í Helguvík
Nú stefnir í að togarinn Orlik hverfi brátt úr höfninni í Njarðvík eftir að hafa verið þar í fjögur ár. Skipið verður rifið í Helguvík en Skipulagsstofnun telur þá framkvæmd ekki háða mati á umhverfisáhrifum.
Skipulagsstofnun telur að niðurrif togarans Orlik í Helguvík sé ekki líktlegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Stofnunin hefur auglýst mat á umhverfisáhrifum og ákvörðun um matsskyldu þar sem segir að niðurrif togarans skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til 5. nóvember nk.
Í gögnum framkvæmdaraðila kemur fram að fyrirhugað sé að rífa niður rússneska togarann Orlik sem hafi staðið í Njarðvíkurhöfn frá haustinu 2014. Til stóð að skipið yrði flutt til niðurrifs erlendis, en ekki varð af því og hefur Hringrás hf. ákveðið að sækja um leyfi til þess að rífa skipið hér á landi og er stefnt að því að það verði gert í Helguvíkurhöfn.
Togarinn var smíðaður árið 1983 og er lengd hans rúmlega 63 m, breidd tæpir 14 m og nettóþyngd hans tæp 700 tonn. Gert er ráð fyrir að niðurrifið taki 2-3 mánuði. Gert er ráð fyrir að skipið verði dregið upp á jarðvegsdúk í Helguvík þar sem skipið verður rifið.
Hættuleg efni losna við niðurrif skipsins
Fram kemur í gögnum Skipulagsstofnunar að ýmis hættuleg efni losna við niðurrif skipsins, s.s. úrgangsolía, olíumengað efni/vatn, spilliefni frá rafgeymum, própan, freon og asbest. Öll framangreind efni eru að finna í nokkrum tugum eða hundruðum kílógramma og geta valdið umtalsverðum umhverfisáhrifum ef þau leka í jarðveg eða í sjó. Meðhöndlun slíkra efna á fjörusvæði sem er ekki sérstaklega búið tilslíkrar vinnu skv. alþjóðlegum stöðlum er varasamt að mati Umhverfisstofnunar. Þrátt fyrir að niðurrifið eigi að fara fram á þéttum dúk með litlu gegndræpi til að verjast því að mengun berist frá skipsflakinu í fjöruna telur Umhverfisstofnun að umhverfisáhrif við leka olíu, olíumengaðra vökva eða annarra efna verði alltaf talsvert neikvæð hvort sem sú mengun nær einungis til jarðvegs eða niður fyrir fjöruborð. Bendir stofnunin á að líf er í grjót- og sandfjörum þó svo þar sé ekki að finna gróður á yfirborði og að mengun í fjörunni gæti haft umtalsverð áhrif á lífríki fjörunnar, þar á meðal óbein áhrif á fugla og hér er um að ræða fjöru sem tilheyrir svæði á lista yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði, og því með aukið verndargildi.
Ekki hæft til flutnings yfir hafið
Í umsóknarferlinu um niðurrif skipsins í Helguvík óskaði Hringrás hf. eftir þykktarmælingu á skrokki skipsins í kjölfar umsagnar Umhverfisstofnunar. Í niðurstöðum skoðunarskýrslu LLOYD‘S kemur fram að þykkt skipsins mælist langt undir leyfilegum mörkum á nokkrum stöðum þar sem mælingar fóru fram. Töluverð hætta sé á að skipið sökkvi ef gat kemur á það, t.d. við flutning eða í höfninni ef vont veður gerir. Niðurstaða skoðunarskýrslu er að skipið sé ekki tækt til flutnings.
Togarinn Orlik var nærri því að sökkva í höfninni í Njarðvík fyrr á árinu. VF-myndir: Hilmar Bragi