Orkuauðlindir á Suðurnesjum í eigu heimamanna
Um 35.000 manns hafa skrifað undir áskorun til Alþingis um að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra. Hér á Suðurnesjum eru orkuauðlindir í jörð tveggja sveitarfélaga, þ.e. Grindavíkur og Reykjanesbæjar.
Víkurfréttir spurðu bæjarstjórana Róbert Ragnarsson í Grindavík og Árna Sigfússon í Reykjanesbæ spurningarinnar „Hverjir eiga jarðhitaauðlindirnar sem liggja í jörðu í landi Grindavíkur annars vegar og hins vegar í landi Reykjanesbæjar?“
Róbert Ragnarsson svaraði fyrir Grindavík: „Grindavíkurbær er eigandi lands og jarðauðlinda í Svartsengi. HS Orka greiðir auðlindagjald fyrir nýtinguna“.
Árni Sigfússon svaraði fyrir Reykjanesbæ: „Reykjanesbær er eigandi lands og auðlindar á Reykjanesi. HS Orka greiðir auðlindagjald fyrir að virkja auðlindina, það er fyrir þá auðlind sem Ríkisstofnunin Orkustofnun leyfir að sé virkjuð“.