Orðin þreytt á ástandinu
Adam Xavier Nelson er einhverfur 8 ára strákur, Adam og 12 ára bróðir hans Daníel eru báðir mikið heimavið sökum kennaraverkfallsins. Foreldrar þeirra þola ástandið ekki mikið lengur og segjast sjá mikla breytingu á hegðun drengjanna, sérstakleg í tilfelli Adams sem eins og mörg einhverf börn er mjög vanafastur.
„Búið er að setja daglegar venjur Adams úr skorðum, hann þarfnast þess að vera í skólanum til þess að honum fari fram sem einstaklingi,” segir John faðir Adams og greinir frá því um leið hvernig skapsveiflur Adams hafa aukist síðustu misseri.
Í sumar gat Adam dvalið í Ragnarsseli frá 9 til 17 en yfir vetrartímann getur hann einungis verið þar frá 13-17. Það er því mikill tími hjá foreldrum hans sem fer í það að sjá um drenginn. „Ég vil helst ekki hugsa til þess að verkfallið geti varað mikið lengur við því ástandið er óbærilegt, maður gerir sér stundum upp falskar vonir um að verkfallið leysist en svo gerist akkúrat ekkert,” segir Jóhanna móðir Adams.
„Adam á nú þegar erfitt með nám sökum fötlunar sinnar en með verkfallinu þá verður það bara erfiðara fyrir hann, hann þarfnast skóladagsins en verkfallið hefur örugglega sett hann aftur um heilt ár í námi ef ekki meira,” sagði John.
Skilaboðin frá foreldrum Adams og Daníels voru skýr, þau vilja að deilandi aðilar finni lausn á þessum vanda sem fyrst. „Þetta er orðið mjög þreytandi og eftir því sem lengra á líður þá verður kennslan og sá árangur sem hafði náðst, sér í lagi með fatlaða einstaklinga, fyrir bí,” sagði Jóhanna í samtali við Víkurfréttir.
VF-mynd/ Jón Björn