OR-hlutur í HS til Geysis Green?
Svo getur farið að hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja fari til Geysis Green Energy, samkvæmt því sem fram kemur á forsíðu Morgunblaðsins í morgun.
OR á 16,5% hlut í HS og Geysir Green 32%.
Samkvæmt heimildum blaðsins kemur þetta fram í sáttatillögu þeirri sem meirihluti borgarstjórnar í stýrihópi um málefni OR lagði fram. Eign OR í HS verði þá samkvæmt því látin renna inn í REI og þaðan inn í GGE en í staðinn komi hlutafé í GGE. Lagt er upp með að hlutur REI í GGE verði aldrei hærri en 25% og ekki lægri en 15%.
Þá kemur fram að lagt er upp með að rekstri HS verði skipt upp í þrjú félög, eitt um framleiðslu á orku, annað í 100% eigu Reykjanesbæjar og hafi með höndum smásölu og dreifingu orku á Reykjanesi og þriðja félagið, sem yrði 100% í eigu OR, hefði með höndum smásölu og dreifingu orku í Hafnarfirði.