Opnunarhátíð Suðurstrandavegar um helgina
Fimmtudaginn 21. júní verður Suðurstrandarvegur formlega opnaður. Af tilefni opnunar bjóða sveitarfélögin Grindavík og Ölfus upp á skoðunarferðir um helgina. Á laugardeginum verður farið frá Ráðhúsinu í Þorlákshöfn um Suðurstrandarveg til Grindavíkur en á sunnudeginum verður lagt af stað frá Kvikunni í Grindavík. Báðar ferðir hefjast klukkan 14:00 og verður stoppað við valda staði á leiðinni, m.a. við Strandarkirkju, Herdísarvík og Selatanga.
Tekið veður á móti gestum með kaffiveitingum og boðið að skoða sýningar á laugardeginum í Kviku í Grindavík en á sunnudeginum á Bæjarbókasafni Ölfuss í Þorlákshöfn. Ferðin tekur fjóra tíma og er nauðsynlegt að skrá sig. Þeir sem vilja fara frá Þorlákshöfn á laugardeginum skrái sig í síma 480 3830 eða um netfangið [email protected] en þeir sem vilja fara frá Grindavík á sunnudeginum skrái sig í síma 420 1190 eða um netfangið [email protected]. Tekið er á móti skráningu til klukkan 12:00 föstudaginn 22. júní.
Auk skoðunarferða verður ókeypis aðgangur í sund í Þorlákshöfn og Grindavík um helgina og 50% afsláttur af gistingu á tjaldstæði. Ennfremur verður 20% afsláttur hjá öllum ferðaþjónustuaðilum í Grindavík og ýmis tilboð í glervinnustofunni Hendur í höfn og skemmtilegar uppákomur í Herjólfshúsinu í Þorlákshöfn um helgina. Íbúar og áhugasamir eru einnig hvattir til að taka þátt í Jónsmessugöngum annarsvegar á vegum Ferðamálafélags Ölfuss á föstudeginum og hinsvegar á vegum Grindavíkur og Bláa Lónsins á laugardeginum.