Opnunarhátíð 10-11 um helgina
Verslunin 10-11 opnaði nýja og breytta búð í húsnæði sínu við Hafnargötu í Reykjanesbæ síðustu helgi. Næstu helgi fer opnunarhátíð verslunarinnar fram.
„Búðin er orðin mjög hlýleg og björt en hún var minnkuð um tæpa 200 fermetra,“ sagði Helga Bára Karlsdóttir verslunarstjóri 10-11 í Reykjanesbæ. „Viðtökurnar hafa verið rosalega góðar en við erum alltaf með nýbakað bakkelsi í búðinni,“ sagði Helga.
Einnig hefur nýr salat-bar verið opnaður í 10-11 þar sem hægt er að kaupa sér kort, sem virkar eins og strætókort, greitt er í einni greiðslu fyrir fjögur fyrstu skiptin og eftir það er hægt að framvísa kortinu. Fimmta skiptið á salat-barinn er svo frítt. „Einnig erum við með mikið úrval af heilsuvörum og stórglæsilegan nammibar,“ sagði Helga.
Opnunarhátíð nýrrar og breyttar verslunar 10-11 fer fram um helgina þar sem boðið verður upp á afslátt af hinum ýmsu vörum. „Ég hvet alla til þess að líta við því allir ættu að finna hér eitthvað við sitt hæfi,“ sagði Helga að lokum.