Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Opnun nýrra verslana og veitingastaðar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Stjórnendur fyrirtækjanna klipptu á borða við opnun staðanna
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
mánudaginn 27. júní 2022 kl. 11:58

Opnun nýrra verslana og veitingastaðar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Sannkölluð hátíðarstemning var í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í morgun við opnun tveggja nýja verslana og veitingastaðar. Veitingastaðurinn Maika’i og skartgripaverslunin Jens opnuðu í svokölluðum pop-up rýmum og verða því starfrækt á flugvellinum í takmarkaðan tíma. Auk þess var bókabúð Pennans Eymundsson opnuð í nýju og stærra rými eftir rösklega flutninga á einni nóttu úr eldra rými búðarinnar í byggingunni. Klippt var á borða, flugstöðin skreytt og gestum og gangandi boðið upp á popp í tilefni dagsins. 

Á næstu vikum verða fleiri pop-up veitingastaðir og verslanir opnuð á flugvellinum. Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslun og veitingar hjá Isavia, hefur þetta að segja um nýjungarnar: „Við vinnum stöðugt að því að bæta upplifun farþega sem fara hér um, í samvinnu við góða samstarfsaðila. Við erum mjög spennt fyrir þeim breytingum sem eiga sér stað á Keflavíkurflugvelli í sumar.“

Ágúst Freyr og Elísabet Metta, eigendur Maika'i ásamt Thelmu Dís og Kolbeini Nóa
Maika’i

Veitingastaðurinn Maika’i hefur notið mikilla vinsælda fyrir açaí skálarnar sínar á síðustu árum. Eigendur staðarins Elísabet Metta Svan Ásgeirsdóttir og Ágúst Freyr Hallsson opnuðu fyrsta Maika’i staðinn í Mathöllinni við Höfða en stuttu síðar opnuðu þau fyrsta útibúið á Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur. Síðan þá hefur fyrirtækið vaxið og dafnað og fást nú vörur þeirra í verslunum víða um land og er staðurinn nú opinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. „Það er búið að vera okkar markmið og draumur frá fyrsta degi að opna þarna þar sem okkur finnst þetta passa 100% þangað inn [í FLE]. Þetta er risa stórt tækifæri fyrir maikai og mögulega leiðir þetta okkur í fleiri ævintýri, maður veit aldrei,“ segir Elísabet Metta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Ronja Snædís, Ívar Örn, Berglind og Ingibjörg
Jens

Skartgripaverslunin Jens er fjölskyldufyrirtæki sem er nú rekið af þriðju kynslóð gullsmiða. Alls eru verslanirnar fjórar auk netverslunar. Ingibjörg Lilju Snorradóttir, framkvæmdarstjóri Jens, segir það hafa verið draumur fjölskyldunnar að prófa rekstur í fríhöfninni. „Við erum auðvitað í skýjunum með að vera búin að fá þetta tækifæri,“ segir hún og bætir við: „Það er þýðingarmikið fyrir lítið fjölskyldufyrirtæki eins og okkar að fá svona tækifæri, fyrirtækið hefur verið að vaxa og dafna og undanfarin ár, og þetta skref skiptir miklu máli fyrir okkur til að komast á næsta þrep á þeirri vegferð.“ Þrátt fyrir að verslunin sé með tímabundinn samning í flugstöðinni segir Ingibjörg að þau ætli að gera sitt allra besta til að reka verslunina um ókomna tíð. 

Borgar Jónsteinsson og Ásta Ben Sigurðardóttir
Penninn Eymundsson

Bókabúð Pennans Eymundssonar hefur verið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um árabil en þennan dag opnaði ný og stærri verslun í öðru rými í Leifsstöð. „Bókabúðin er alltaf vinsælt stopp farþega og er því sérstaklega ánægjulegt að hún sé komin í stærra rými,“ segir Gunnhildur Erla. Áhersla hefur hingað til verið lögð á sölu íslenskra og erlendra bóka en nú er einnig hægt að kaupa gjafa- og matvöru í versluninni. „Þetta er spennandi viðbót hjá okkur. Þrátt fyrir að hafa innleitt gjafavöruna og matvöruna erum einnig að auka við bækurnar hjá okkur, það er í raun alveg öfug þróun við aðrar bókabúðir á flugvöllum. Þær eru búnar að færast í þá átt að minnka bækurnar og fara meira í að selja sælgæti og samlokur og annað. Á meðan erum við að gera bókunum hátt undir höfði, sem er heldur skemmtilegt,“ segir Borgar Jónsteinsson, rekstrarstjóri verslunarsviðs hjá Eymundsson. Þess má geta að fyrsta prentun Njálu frá árinu 1772 er til sýnis í versluninni.

Hér má sjá Njálu frá árinu 1772, hana er að finna í verslun Eymundsson í FLE