Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Opnuðu verslunina til að veita mikilvæga þjónustu við iðnaðarmenn í Grindavík
Sigurbjörn og Bjarki að aðstoða viðskiptavini. VF/pket
Fimmtudagur 30. nóvember 2023 kl. 09:18

Opnuðu verslunina til að veita mikilvæga þjónustu við iðnaðarmenn í Grindavík

Vélsmiðja Grindavíkur hefur opnað aftur í Grindavík og þjónustar núna iðnarðarmenn og fyrirtækin í bænum. Iðnaðarmennirnir eru að vinna við viðgerðir á innviðum bæjarins á meðan fyrirtækin við höfnina eru að reyna að hefja einhverja starfsemi að nýju, þó svo hún sé smá í sniðum.

„Þetta er búið að vera skrítið en það er gott að vera kominn aftur. Við vorum hérna síðast föstudaginn 10. nóvember og ekkert verið síðan þá, nema í verðmætabjörgun þegar við tókum verkfæri úr smiðjunni og eitthvað af lagernum hjá okkur,“ segir Bjarki Sigmarsson hjá Vélsmiðju Grindavíkur sem rekur verslun með ýmsum nauðsynjum fyrir fyrirtæki og einstaklinga í Grindavík. Þjónustuna er mikilvægt að hafa í bæjarfélaginu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Smiðjan er komin tímabundið til Hafnarfjarðar en búðin stóð eftir lokuð og læst. Núna þegar líf er að færast aftur yfir Grindavík, þar sem iðnaðarmenn vinna að lagfæringum eftir jarðskjálftana og fyrirtækin á hafnarsvæðinu að byrja starfsemi, varð mönnum ljóst að verslun Vélsmiðju Grindavíkur yrði að vera opin enda þurfa iðnaðarmenn mikið að leita þangað eftir nauðsynjum. Að sögn Bjarka fékkst leyfi bæði frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Stefán og Páll eru tveir af fastakúnnum.

„Það var pressa á okkur því það vantaði þjónustuna og við opnuðum því á mánudaginn, sautján dögum eftir hamfarirnar og það var ánægjuleg stund.“

Bjarki segist fullur bjartsýni fyrir hönd Grindavíkur og hlakkar til að komast heim aftur. Hann býr vestast í þorpinu og segir húsið sitt vera í góðu lagi, a.m.k. við fyrstu skoðun. „Ég myndi flytja heim í kvöld ef ég mætti það,“ segir hann og bætir við við að það hafi verið umræða yfir kaffibollanum í Vélsmiðju Grindavíkur að það væru forréttindi að fá að sofa í rúminu sínu og setjast í sófann sinn fyrir framan sjónvarpið á kvöldin. Bjarki er ekki bjartsýnn á að jólin verði haldin í Grindavík en það verði vonandi fljótlega eftir áramót sem Grindvíkingar fari að flytja heim að nýju. „Það þarf að yfirfara lagnakerfi og ýmislegt áður en við hleypum öllum inn aftur – en útliðið er víst betra en þeir þorðu að vona,“ segir Bjarki Sigmarsson í Vélsmiðju Grindavíkur.