Opna glæsilega billjardstofu í Reykjanesbæ
Nýjung er að bætast í flóru afþreyingar í Reykjanesbæ þegar ný billjardstofa, Pool@Bar, opnar við Framnesveg á föstudag.
Eigendur staðarins, Jens Beining Jia og Arnar Steinn Sveinbjörnsson, hafa unnið hörðum höndum undanfarna mánuði að því að standsetja þennan glæsilega stað og hefur í engu verið til sparað.
„Við vorum ákveðnir í því að hafa staðinn eins flottan og við gátum. Við erum með sex keppnisborð sem við keyptum frá Þýskalandi, flatskjái þar sem má fylgjast með fótboltanum, þægilega sófa og margt fleira,“ sagði Jens í samtali við Víkurfréttir.
Á staðnum er einnig hægt að spila skák og pílu, en þeir félagar leggja áherslu á létt og þægilegt andrúmsloft, laust við sígarettureyk, þar sem fólk getur komið saman og á góða stund.
„Svo verðum við með „Hot Wings“ og samlokur og þess háttar á barnum þannig að við verðum með allt til alls.“
Þeir félagar eru með ýmsar uppákomur á döfinni en í haust verður hrundið af stað fyrirtækjakeppni í pool svo eitthvað sé nefnt.
Staðsetningin er ansi sérstök, en Pool@Bar er í portinu fyrir aftan Hótel Keflavík. Þar er búið að koma upp sólpalli, en gagngerar endurbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu sem áður hýsti bílaverkstæði og fiskvinnslu. Þeir Jens og Arnar eru þess þó fullvissir að staðurinn muni vekja lukku. „Þetta verður afþreyingarstaður, en ekki skemmtistaður þar sem fólk getur komið saman alla daga vikunnar og tekið í leik, fengið sér einn kaldan og spjallað saman. Svo verðum við líka með þjónustu fyrir fyrirtæki og hópa sem geta fengið salinn leigðan fyrir fundi eða samkomur.“
Formleg opnun verður, eins og fyrr segir, á morgun, en eftir kl. 22 verður Pool@Bar opnaður fyrir almenna gesti og verður ýmislegt í boði, t.d. tilboð á barnum. Aldurstakmark eftir kl. 20 að kvöldi verður 20 ár og eru allir velkomnir á þennan nýjasta samkomustað í Reykjanesbæ.
VF-mynd/Þorgils: Jens og Arnar með kjuða í hönd.