Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Opinn fundur um innanlandsflug og Landhelgisgæzlu á Ránni
Mánudagur 12. september 2005 kl. 16:03

Opinn fundur um innanlandsflug og Landhelgisgæzlu á Ránni

Hjálmar Árnason, alþingismaður hefur boðað til opins fundar á Ránni næstkomandi fimmtudag, kl. 20. Tilefnið er umræða um innanlandsflugið og Landhelgisgæsluna. En hvers vegna núna?
„Eins og mál hafa skipast í umræðunni hafa Suðurnesin aldrei átt jafn mikla möguleika á að ná innanlandsfluginu hingað sem og Gæslunni.  Um getur verið að tefla nærri 500 störfum þegar allt er talið þannig að ég tel þetta eitt mesta hagsmunamál svæðisins í langa tíð og hvet alla Suðurnesjabúa til að sýna áhuga á þessu mikilvæga máli.  Margir munu leggjast gegn þessum flutningi“.
- Hvað hefur breyst?
„Ég tel þrjú atriði skipta sköpum.  Nú er öll borgarstjórn Reykjavíkur orðinn sammála um að völlurinn fari úr Vatnsmýri í stað þess að áður voru menn ekki á einu máli.  Í öðru lagi eru nágrannasveitarfélögin ekki hrifin af hugmyndinni um Löngusker, auk þess sem þar er talin flóðahætta.  Í þriðja lagi gera Bandaríkjamenn nú þá kröfu að við tökum meiri þátt í rekstri Keflavíkurflugvallar þannig að hagkvæmnisjónarmið mæla með einum flugvelli á sv-horninu.  Þá má nefna að Bessastaðahjáleið styttir tímann af Suðurnesjum inn í miðvæ niður í um 25 mínútur“.
- Hverjir kynna málið á fundinum á fimmtudagskvöld?
„Ég hef boðið samgönguráðherra, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, bæjarstjóranum í Reykjanesbæ, forstjóra Landhelgisgæslunnar, forstjóra FLE, flugvallarstjóra og talsmönnum áhugahóps um flutning innanlandsflugs til Suðurnesja.
Mér finnst skipta máli að reifa sjónarmið um þetta stóra mál og trúi ekki öðru en íbúar svæðisins sýni í verki áhuga sinn með því að mæta. Við náðum árangri með tvöföldun Reykjanesbrautar, m.a. vegna órofa samstöðu íbúanna. Fylgjum því eftir í þessu mikla hagsmunamáli Suðurnesja“, segir Hjálmar Árnason alþingismaður.
Björn Vífill, veitingamaður á Ránni, býður Ránna endusgjaldslaust fundinn og vill Hjálmar koma á framfæri þökkum til hans fyrir stuðning við mikilvægan málstað.

 

Myndir af Keflavíkurflugvelli fengnar hjá Google Earth

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024