Opinn fundur í Njarðvíkurskóla um hækkun leikskólagjalda
Foreldrafélög leikskóla í Reykjanesbæ hafa boðið til opins fundar í Njarðvíkurskóla nk. mánudag þar sem rætt verður um hækkun leikskólagjalda. Árni Sigfússon bæjarstjóri mun sitja fyrir svörum á fundinum sem hefst klukkan 20:00.
Sigríður H. Guðmundsdóttir formaður foreldrafélags leikskólans Heiðarsels og Hólmfríður Karlsdóttir gjaldkeri foreldrafélagsins á leikskólanum Gimli eru ósáttar við hækkun leikskólagjaldanna. „Við erum mjög ósáttar við þessar hækkanir og hvernig þær hafa verið kynntar. Foreldrar eru almennt mjög óánægðir með hækkanirnar og vilja að eitthvað sé gert. Þetta eru það rosalegar hækkanir að auðvitað koma þær við budduna hjá fólki, enda hefur margt annað hækkað hér í bænum,“ segja þær og telja að fundurinn á mánudaginn geti haft áhrif. „Við viljum bara skýr svör frá bæjaryfirvöldum um þessi mál. Þessar hækkanir hafa nú þegar skapað mikil leiðindi og reiðin kraumar undir í foreldrum sem eiga börn á leikskóla. Það er allsstaðar talað um þessar hækkanir.“
Hólmfríður segir að krafist verði skýrra svara á fundinum. „Við viljum til dæmis fá að vita af hverju bæjaryfirvöld hafi ekki getað hækka þessi gjöld í skrefum?“
Þær segja að mikið hafi verið hringt í þær þar sem þær séu í forsvari fyrir foreldrafélög leikskólanna. „Síminn stoppar ekki hjá manni og það eru reiðir foreldrar sem við erum að tala við. Fólk má ekki bara sitja við eldhúsborðið, bölva þessum hækkunum en gera síðan ekki neitt. Við verðum að sýna samstöðu og mæta á fundinn.“
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Hólmfríður Karlsdóttir og Sigríður H. Guðmundsdóttir.