Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Opið hús og fjölbreytt dagskrá í lækningalind Bláa Lónsins á morgun
Föstudagur 24. október 2008 kl. 13:49

Opið hús og fjölbreytt dagskrá í lækningalind Bláa Lónsins á morgun

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í tilefni alheimsdags psoriasis miðvikudaginn 29. október verður opið hús í Bláa Lóninu - lækningalind frá kl. 10.00 – 14.00 laugardaginn 25. október. Rannsóknarverkefni verða kynnt auk þess sem gestum verður boðið upp á léttar veitingar og frían aðgang að lóni Lækningalindarinnar.

Fyrirlestrar um rannsóknir á lækningamætti og lífríki Bláa Lónsins hefjast kl. 13.00. Ása Brynjólfsdóttir, lyfjafræðingur og rannsókna- og þróunarstjóri Bláa Lónsins mun kynna öflugt rannsóknarstarf fyrirtækisins. Hún mun m.a.a segja frá rannsóknum á náttúrulegum efnum Bláa lóns jarðsjávarins sem hugsanlega skýra að einhverju leyti lækningamátt hans á psoriasis. Þá mun hún greina frá Lífsgæðarannsókn sem Steingrímur Davíðsson húðlæknir Bláa Lónsins - lækningalindar vann á sl. ári og kynnti á Norrænu þingi húðlækna. „Áhrif meðferðar á lífsgæði skiptir í auknum mæli máli við val á meðferð, ekki síst þegar um krónískan sjúkdóm eins og psoriasis er að ræða,“ segir Ása.

Jenna Huld Eysteinsdóttir, læknir, mun kynna rannsókn er hún vinnur að fyrir Bláa Lónið í samstarfi við Landspítalann og ber hún titilinn „Áhrif Bláa Lóns meðferðar á psoriasis miðað við hefðbundna UVB ljósameðferð“. Síðastliðið ár hefur Jenna Huld unnið að undirbúningi rannsóknarinnar, meðal annars með forrannsókn sem hefur nú þegar gefið mikilvægar upplýsingar. Rannsóknarverkefnið verður að öllum líkindum doktorsverkefni Jennu Huldar við Læknadeild Háskóla Íslands.

Gestum verður boðið að prófa vatnsleikfimi kl. 10.00 og boðið verður upp á nudd í lóni Lækningalindarinnar frá kl 10.00 – 12.00. Ulla Uhrskov, næringarfræðingur, mun svara spurningum um næringarfræði og rétt matarræði frá kl.10.00 – 14.00.

Meðferðin sem veitt er í Bláa Lóninu Lækningalind er viðurkennd af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum. Meðferðargestir frá 20 þjóðlöndum hafa sótt meðferðina og árlega eru veittar um 6500 meðferðir innlendum og erlendum meðferðargestum.

Um 125 milljónir manna í heiminum þjást af psoriasis eða u.þ.b. 3% af íbúum heimsins. Alheimsdagur psoriasis er tækifæri til að fræða sjúklinga, lækna, hjúkrunarfólk og almenning um sjúkdóminn og hvetja til bætts aðgengis að meðferðarúrræðum. Tilgangur dagsins er að vekja fólk til umhugsunar um sjúkdóminn, bæta aðgengi að meðferðarúrræðum og stuðla að einingu og samhug psoriasissjúklinga.


Yfirlit yfir dagskrá Bláa Lónsins – lækningalindar laugardaginn 25. október í tilefni alheimsdags psoriasis.

10.00 – 14.00 Opið hús og frír aðgangur að lóni lækningalindarinnar

10.00 – 14.00 Ráðgjöf um næringarfræði – Ulla Uhrskov, næringarfræðingur
10.00 – 12.00 Nudd í lóni lækninglindarinnar
11.00 Vatnsleikfimi í lóninu
13.00 Öflugt rannsóknarstarfs. Ása Brynjólfsdóttir, lyfjafræðingur og rannsókna- og þróunarstjóri Bláa Lónsins, greinir frá rannsóknum á virkum efnum jarðsjávarins. Hún fjallar einnig um Lífsgæðarannsókn sem var unnin af Steingrími Davíðssyni, húðlækni Bláa Lónsins.
13.30 Áhrif Bláa Lóns meðferðar á psoriasis miðað við hefðbundna UVB ljósameðferð. Fyrirlestur Jennu Huldar Eysteinsdóttur, læknis.