Opið hús í nýrri þjónustumiðstöð í Vogum
Nú um helgina er komið að vígslu nýrrar og glæsilegrar þjónustumiðstöðvar Sveitarfélagsins Voga. Á sunnudag verður opið hús fyrir íbúa sveitarfélagsins og aðra gesti, sem vilja líta við og skoða mannvirkið.
Formleg vígsla verður kl. 14, en húsið opið frá kl. 13 – 16. Auk þess sem húsið verður formlega vígt og tekið í notkun þá verður einnig tekin í notkun hin nýja og glæsilega aðstaða Brunavarna Suðurnesja, og þeim merku tímamótum fagnað að nú verður slökkvibíll varanlega staðsettur í Vogum.
Síðast en ekki síst verður bílaþvottastæði fyrir almenning við húsið, þótt ekki sé rétti árstíminn til að taka það í notkun nú, segir í fréttabréfi Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra í Vogum.