Opið hús í Bláa Lóninu Lækningalind í dag
– í tilefni af Alheimsdegi Psoriasis miðvikudaginn 29. október.
Opið hús verður í Bláa Lóninu Lækningalind í tilefni af Alheimsdegi Psoriasis í dag, miðvikudaginn
29. október frá kl. 14.00 -20.00.
Gestum gefst kostur á að koma og kynna sér Bláa Lóns psoriasis meðferðina og aðstöðuna í Lækningalindinni. Einnig verður kynning á Blue Lagoon meðferðarvörum, en þær eru mikilvægur hluti af Bláa Lóns psoriasis meðferðinni. Léttar veitingar verða í boði.
Um Bláa Lóns psoriasis meðferðina – viðurkenndur meðferðarvalkostur
Bláa Lóns psoriasis meðferðin er einstök náttúruleg meðferð sem byggir á lækningamætti jarðsjávar Bláa Lónsins. Náttúrulegt umhverfi, ferskt loft, hreint vatn og Blue Lagoon húðvörur spila einnig mikilvægt hlutverk í meðferðinni. Gestir eru hvattir til að slaka vel á og njóta þess að baða sig í hlýjum jarðsjónum og stuðla þannig að auknu jafnvægi líkama og sálar.
Bláa Lóns psoriasis meðferðin er viðurkenndur meðferðarvalkostur hjá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum og hefur meðferðin verið veitt um árabil.
Nýjar rannsóknir staðfesta góðan meðferðarárangur
Bláa Lóns psoriasismeðferðin er árangursrík og staðfesta nýjar vísindarannsóknir enn frekar hve áhrifarík meðferðin er. Niðurstöður rannsóknanna eru grunnur þess að meðferðin er viðurkenndur meðferðarvalkostur hjá heilbrigðisyfirvöldum.
Auk þess að hafa hlotið viðurkenningu innlendra heilbrigðisyfirvalda hefur Bláa Lónið einnig hlotið viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda í Færeyjum og Danmörku og greiða viðkomandi heilbrigðisyfirvöld fyrir Blue Lagoon psoriasis meðferð þarlendra sjúklinga.