Opið hús í Bláa Lóninu – Lækningalind í tilefni Alheimsdags Psoriasis
Í tilefni Alheimsdags psoriasis verður opið hús í Bláa Lóninu – Lækningalind frá kl. 10.00 – 20.00 fimmtudaginn 29. október.
Gestum gefst tækifæri til að kynna sér starfsemi Lækningalindarinnar og verður þeim jafnframt boðið að baða í lóni Lækningalindarinnar. Hjúkrunarfræðingur Bláa Lónsins mun svara fyrirspurnum og veita upplýsingar um nýja psoriasisrannsókn.
Bláa Lónið hefur unnið markvisst að málefnum psoriasissjúklinga á Íslandi. Bláa Lóns meðferðin sem veitt er í Bláa Lóninu Lækningalind er einstök á heimsvísu og er aðstaða fyrir sjúklinga með því besta sem þekkist í heiminum í dag. Auk innlendra sjúklinga hafa meðferðargestir frá 20 þjóðlöndum notið meðferðar í Bláa Lóninu. Meðferðin hefur verið kynnt erlendis m.a. í samstarfi við SPOEX, Samtök Psoriasis og Exemsjúklinga, og með þeim hætti hafa samtökin eflt alþjóðlegt tengslanet og stuðlað að aukinni þekkingu hér heima.
Í dag þjást 125 milljónir manna af psoriasis. Sjúkdómurinn er ekki smitandi og tilgangur alheimsdagsins er ekki hvað síst að fræða fólk um sjúkdóminn og vinna með þeim hætti gegn fordómum gagnvart þeim er þjást af psoriasis. Alheimsdagur psoriasis var fyrst haldinn árið 2004 og hefur hann verið haldinn árlega frá þeim tíma.