Opið fyrir almenning?
Húsnæði á Rockville svæðinu á Miðnesheiði varð eldi að bráð í nótt en verið er að rannsaka eldsupptök. Þykir þó líklegt að um íkveikju sé að ræða þar sem ekkert rafmagn sé í Rockville. Blaðamaður Víkurfrétta fór upp að svæðinu í morgun en þar var engan að sjá. Hliðið að Rockville var þó opið og lét blaðamaðurinn lögreglu og varnarlið vita af því. Beið blaðamaðurinn eftir því að lögregla eða varnarliðið mætti á svæði til þess að loka hliðinu en þeir mættu ekki.
Rockville er mikil slysagildra og hefur hliðið að gömlu ratsjárstöðinni á Miðnesheiði verið ólæst í töluverðan tíma. Ýmsir aðilar hafa nýtt sér það að svæðið sé opið og má þar t.d. nefna að tónlistarmyndband var tekið upp í gömlum húsum á svæðinu en það var hljómsveitin Igore sem stóð fyrir því. Lögreglan mætti þá á svæðið og rak fólkið í burtu.
Allt sem hægt er að eyðileggja á Rockville svæðinu hefur verið eyðilagt en gamlar búslóðir liggja eins og hráviður um allt svæðið.
Ekki er vitað hvort hliðinu verði læst í dag en Víkurfréttir munu fylgja því náið eftir.
Myndin: Hliðið er opið á Rockville svæðinu VF-mynd: Atli Már