Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 28. mars 2002 kl. 18:56

Óperuperlur í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju

Í kvöld, föstudaginn langa verða haldnir tónleikar til styrktar óperufélaginu Norðuróp sem stóð svo eftirminnilega fyrir Óperuveislunni í Reykjanesbæ í fyrra. Tónleikarnir verða 29. mars, sem er föstudagurinn langi og hefjast þeir klukkan 20.00. Á tónleikunum munu Dagný Jónsdóttir sópran, Elín Halldórsdóttir sópran, Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzosópran, Hrólfur Sæmundsson bariton, Manfreð Lemke bassi og Jóhann Smári Sævarsson bassi koma fram, og þau gefa öll vinnu sína til styrktar Norðurópi. Undirleikari er Anne Champert píanóleikari, en hún er tónlistarstjóri við ríkisóperuna í Saarbruecken og er mikill fengur fyrir Norðuróp að fá hana til liðs við sig á þessum tónleikum, því hún er sérfræðingur í óperubókmenntunum. Aðgangseyrir að tónleikunum er 2000 krónur og rennur allur ágóðnn til Norðuróps til að byggja upp áframhaldandi starf félagsins, en veittur er nemenda-, ellilífeyris- og öryrkjaafslátur.

Jóhann Smári Sævarsson söngvari sem er einn af stofnendum Norðuróps segir að tónleikarnir séu óperugala og dagskráin mjög fjölbreytt. Atriði og aríur úr eftirfarandi óperum verða flutt: Töfraflautan, don Giovanni, Cosi fan tutte, Russalka, Fidelio, Lakme, Lohengrin, Seldu brúðinni, Rakaranum frá Seville, Samson og Dalila og loks úr óperunni Don Carlo. Óperuunnendur ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Jóhann Smári er á leið til Þýskalands þar sem hann hefur ráðið sig til óperunnar í Regensburg. En hann og kona hans, Elín Halldórsdóttir, munu nota sumrin hér og starfa áfram með óperufélaginu Norðuróp. Sigurður Sævarsson, bróðir Jóhanns Smára, er að semja nýja óperu ásamt rithöfundinum Hallgrími H. Helgasyni. Þegar er hafin undirbúningasvinna að stórri óperuhátíð sumarið 2003, þar sem fluttar verða tvær óperur og munu erlendir aðilar koma að því verkefni. Óperuunnendur og þeir sem njóta þess að hlýða á góðan söng ættu ekki að láta þessa skemmtun framhjá sér fara og styrkja þannig nýsköpun í listum og menningu á Suðurnesjum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024