„Ömurleg heimkoma“
Þjófarnir grömsuðu og fóru í skúffur og skápa í svefnherbergjum og eldhúsi.
„Þetta var ömurleg heimkoma eftir þorrablót. Þegar við komum heim um klukkan hálf þrjú á laugardagskvöldi var allt á rúi og stúi inni hjá okkur. Þeir tættu og grömsuðu í skúffum og skápum í svefnherbergjum og í eldhúsinu og því miður varð þeim ágengt. Þeir tóku skartgripi sem ég átti talsvert af en við höfðum einnig geymt peninga sem þeir fundu,“ segir kona í einu af einbýlishúsunum sem innbrotsþjófar brutust inn í nýlega.
Konan segir að eftir atvikið hafi hún rætt við fólk um þessi mál. Margir virðast geyma fjármuni í svefnherbergjum eða í eldhússkápum. Einnig í náttborðsskúffum og í umræddu dæmi tóku þjófar verðmæti þaðan en konan nefndi einnig nærfataskúffu sína en að hennar sögn virðast margar konur geyma verðmæti þar. En þjófarnir tóku verðmæti úr barnaherbergjum og slepptu ekki peningabaukum barnanna. Í tveimur tilvikum hefur verið brotist inn hjá eldri hjónum þar sem þjófarnir náðu að stela talsverðum verðmætum í peningum og skartgripum. „Mig grunar að margt eldra fólk eigi of mikla peninga heima hjá sér og við vitum um mörg dæmi um að eldri konur eigi marga dýrmæta skartgripi,“ segir konan.
Þjófarnir léu allar tölvur vera, bæði fartölvur, tölvuskjái og leikjatölvur. „Ég hef verið að fletta upp myndum af skartgripum sem ég átti til að geta sýnt tryggingafélaginu en ekki gengið nógu vel. Ég myndi mæla með því að fólk skrái þessar eignir sínar og best væri líklega að taka myndir til að eiga, t.d. af skartgripunum.“
Í þessum innbrotum hafa þjófarnir komist inn um glugga, t.d. á bak við hús. Í tilfelli konunar sem VF ræddi við fóru þeir inn um lítinn glugga í bílskúrnum.
Samkvæmt heimildum VF er talið líklegt að um vana menn sé um að ræða og af erlendum uppruna. Nokkuð hefur verið um svipuð innbrot á höfuðborgarsvæðinu og rætt um innbrotsgengi. Í öllum tilfellunum á Suðurnesjum voru húseigendur ekki með myndavélar við hús sín eða öryggiskerfi.