Ómar á Þórdísi GK-68 tók skammtinn í dag á strandveiðinni.
Strandveiðibátarnir voru einn af öðrum að týnast í land í Grindavík í dag (6.júlí) en þeir mega vera úti í allt að fjórtán klukkustundir. Skammturinn af þorski er 770 kg í róðri og svo má taka ufsa með.
Ómar Ásgeirsson á Þórdísi GK-68, var glaðbeittur eftir góðan dag. „Ég renndi út úr höfninni kl. fjögur og hefði því mátt vera til kl. 18 en ég var kominn með skammtinn. Ég var u.þ.b. níu tíma að ná honum og það veiddist jafnt og þétt allan tímann, þ.a.l. var þetta aldrei neitt mok heldur kom aflinn og jafnt og þétt allan tímann. Nú er komið helgarfrí, við megum ekki róa nema mánudaga til fimmtudags en svo er strandveiðikvótinn sem er tíu þúsund tonn, að verða búinn. Það er búið að sækja um fjögur þúsund tonn í viðbót en hvort Svandís matvælaráðherra þorir að taka ákvörðun um það skal ég ekki segja til um, hún vill kannski bara vera í að banna hvalveiðar en það fannst mér ekki góð ákvörðun hjá henni. Vertíðin hefur annars gengið vel hjá mér, ég er búinn að fiska fyrir einhverjar sex milljónir á strandveiðitímabilinu en ég á auk þess kvóta og hef fiskað fyrir átján milljónir í heildina á árinu. Þetta hefur gengið vel og verður fróðlegt hvort Svandís auki kvótann. Þessir fyrir norðaustan eiga nú skilið að fá að veiða einhvern góðan fisk, þetta kerfi er ósanngjarnt fyrir þá,“ sagði Ómar.