Ólympíueldurinn í Keflavík
Ólympíueldurinn var í Keflavík í kvöld og fram á nóttina. Flugvél sem flytur eldinn til Bandaríkjanna hafði viðkomu á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir miðnætti til að taka eldsneyti. Koma vélarinnar til Keflavíkurflugvallar fór mjög hljótt, enda eru Kínverjar mjög varkárir nú þegar allt logar í mótmælum stuðningsmanna Tíbets. Myndatökumaður Víkurfrétta mátti t.a.m. ekki nálgast vélina. Talið er að vopnaður vörður hafi verið um kyndilinn í flugvélinni, sem var af gerðinni Airbus A330-200.
Ólympíueldurinn kom til Keflavíkurflugvallar frá París og héðan var ferðinni heitið í beinu flugi til San Francisco. Viðdvöl vélarinnar í Keflavík var ögn lengri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Þannig átti flugvélin eingöngu að hafa hér klukkustundar viðdvöl, en vélin fór ekki aftur í loftið fyrr en tæpum tveimur og hálfum tíma síðar.
Dagskrá tengd ólympíueldinum fór öll úr skorðum í París í gær og menn bíða spenntir eftir að sjá hverjar móttökurnar verða í Bandaríkjunum.
Þrýstingur á kínversk stjórnvöld vegna mannréttindamála og framgöngu þeirra í Tíbet hefur aukist mjög að undanförnu og sömuleiðis þrýstingur á vestræna stjórnmálamenn að sniðganga opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Peking í ágúst.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi Bárðarson þegar flugvélin með ólympíueldinn hafði viðkomu í Keflavík í gærkvöldi. Myndirnar voru teknar rétt fyrir kl. 02 í nótt þegar flugvélin fór frá Leifsstöð.