Ölvaður stal póstbíl og festi í skafli
Póstbíl var stolið þar sem hann stóð í gangi fyrir utan Flugstöð Leifs Eiríkssonar á laugardagsmorguninn síðastliðinn. Bílstjórinn hafði brugðið sér inn í Leifsstöð með dagblöð en þegar hann kom til baka reyndist bíllinn horfinn. Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um atvikið, en skömmu áður hafði henni verið tilkynnt um leigubílstjóra sem væri í vanda við Leifsstöð þar sem erlendur farþegi hefði tekið bílinn úr miðbæ Reykjavíkur en neitaði að greiða farið þegar komið var í Leifsstöð. Hefði hann verið mjög ölvaður.
Lögregla þurfti ekki lengi að svipast um eftir póstbílnum áður en hann fannst fastur í skafli skammt frá flugstöðinni. Við stýrið sat maður, sem reyndist við nánari athugun vera, erlendur ferðalangur, sá hinn sami og hafði tekið leigubílinn að Leifsstöð nokkru áður og neitað að greiða fargjaldið. Fá þurfti tæki á staðinn til þess að draga póstbílinn upp.
Ferðalangurinn erlendi var handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var yfirheyrður.