Ölvaður ökumaður sparkaði í lögreglumann
Tveir ökumenn voru staðnir að ölvunarakstri í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að annar þeirra hafi brugðist illa við þegar lögregla hafði afskipti af honum. Hrækti hann og sparkaði í öxl lögreglumannsins er ók lögreglubifreið með hann á lögreglustöð. Á lögreglustöð vildi hann slást við lögreglu og var mjög ósamvinnuþýður. Þar kom í ljós að hann var, auk annarra brota, sviptur ökuréttindum.
Hinn ökumaðurinn viðurkenndi á vettvangi að hann hefði verið sviptur ökuréttindum. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð.