Ölvaður og próflaus ökumaður í árekstri
Ökumaður ók bíl inn í hlið á öðrum bíl í Sandgerði um síðustu helgi. Hann var undir áhrifum fíkniefna og áfengis og hafði aldrei tekið bílpróf. Frá þessu segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum. Með ökumanninum í bílnum voru fjórir farþegar, allir einnig undir áhrifum áfengis. Eftir áreksturinn ók ökumaðurinn af vettvangi en lögreglan hafði fljótlega upp á honum. Ökumaðurinn og farþegarnir voru allir handteknir og færðir á lögreglustöð. Þar játaði ökumaðurinn brot sitt. Engin slys urðu á fólki.