Ölvaður í ofsaakstri í Kúagerði
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði á sunnudag bifreið við Kúagerði á Reykjanesbraut, sem hafði mælst á 137 kílómetra hraða. Þegar lögreglumenn ræddu við ökumann, rúmlega þrítugan karlmann, var mikil áfengislykt af honum. Hann var því handtekinn og færður á lögreglustöð. Sýnatökur staðfestu að hann hafði neytt áfengis. Að auki reyndist hann einnig hafa verið sviptur ökuréttindum með dómi.
Þá voru höfð afskipti af tveimur ökumönnum til viðbótar. Annar hafði ekki öðlast ökuréttindi og hinn hafði verið sviptur réttindum.
Loks vakti bifreið, sem ekið var rásandi milli vegkanta, athygli lögreglu. Rætt var við ökumanninn sem kvað bílinn bilaðan svo erfitt væri að halda henni í eðlilegum akstri. Ökumaðurinn sjálfur reyndist vera í lagi að öðru leyti en því að hann var eftirlýstur vegna ógreiddra sekta.