Ölvaðir vilja yfir girðingu til Varnarmálastofnunar
Það eru ekki börnin í Háaleitisskóla á Ásbrú í Reykjanesbæ sem ógna öryggi Varnarmálastofnunar Íslands. Eins og greint var frá fyrr í dag er stofnunin að láta setja upp illfæra gaddavírsgirðingu sem enginn fer yfir nema fuglinn fljúgandi.
Girðingin illvíga sem Víkurfréttir kölluðu (í góðlátlegu gríni) vígbúnað Varnarmálastofnunar, liggur ekki bara framhjá barnaskólanum á Ásbrú. Hún liggur líka framhjá Officeraklúbbi Einars Bárðarsonar. Þegar Einar blæs til dansleikja í Offanum hafa ölvaðir einstaklingar oftar en ekki ratað frekar á girðinguna við öryggissvæði Varnarmálastofnunar, frekar en í leigubíla sem flytja fólk niður í bæ.
Svanborg Sigmarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Varnarmálastofnunar Íslands, sagðist í samtali við Víkurfréttir nú áðan, ekki vita hversu margir hefðu reynt að komast yfir girðinguna inn á öryggissvæðið, en þeir væru nógu margir til þess að ákveðið var að gera girðinguna illfærari en hún var áður.
Í frétt okkar fyrr í dag var sagt að girðingin ætti sér vart hliðstæðu hér á landi. Svanborg sagði girðinguna vera í anda þeirra sem girtu af herstöðvar í Noregi. Þá væru vatnsverndarsvæði girt af með svipuðum hætti.
Svanborg vonaðist til að gaddavírinn sem nú væri verið að setja efst á girðinguna umhverfis öryggissvæðið á Ásbrú yrði til þess að halda óboðnum gestum frá svæðinu, sem helst væru ölvaðir gestir á leiðinni heim af dansleik á Ásbrú.