Ólögmæt uppsögn í Vogum
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur með úrskurði sínum fallist á kröfu BSRB um ólögmæti uppsagnar starfsmanns á Heilsuleikskólanum Suðurvöllum í Vogum.
Starfsmaðurinn, sem er kona, hóf störf á leikskólanum í febrúar á síðasta ári. Síðastliðið vor fór hún í tvö starfsmannaviðtöl. Í því síðara var fundarefnið möguleg starfslok hennar en stjórnendur töldu hana hafa sýnt hörkulega framkomu gagnvart börnunum, að því er fram kemur í gögnum málsins. Töldu þeir viðkomandi starfsmann hafa fengið mörg tækifæri og tilsögn til að að bæta framkomu sína án þess að það skilaði tilætluðum árangri.
Með bréfi skólastjóra leikskólans þann sama dag var starfsmanninum afhent uppsagnarbréf þar sem honumi var sagt upp störfum með kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti og tekið fram að ekki væri óskað vinnuframlags á uppsagnartíma.
Starfsmaðurinn leitaði aðstoðar síns stéttarfélags sem óskaði eftir rökstuðningi og dró lögmæti uppsagnarinnar í efa. Vakin var athygli á að ákvörðun um uppsögn væri stjórnvaldsákvörðun sem lyti stjórnsýslulögum. Einnig var bent á að kjarasamningur kveður á um skriflega áminningu sem undanfara lögmætrar uppsagnar auk þess sem óheimilt sé að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna. Uppsögn án undangenginnar áminningar sé því ólögmæt nema starfsmaður hafi framið alvarlegt brot í starfi, segir m.a. í gögnum málsins.
Í úrskurðarorði segir að óumdeild sé að starfsmanninum barst aldrei skrifleg áminning með þeim hætti sem kveðið er á um í kjarasamningi. Þótt ráðuneytið telji uppsögn ólögmæta af framangreindri ástæðu telur það rétt að kanna einnig hvort andmælaréttar hafi verið gætt gagnvart starfsmanninum áður en henni var sagt upp störfum. Þá liggur fyrir að henni voru ekki kynntar skriflega þær ávirðingar sem á hana voru bornar, áður en henni var sagt upp, segir í úrskurðinum.
Ráðuneytið kemst að þeirri niðurstöðu að sveitarfélagið hafi ekki gætt réttrar málsmeðferðar við uppsögn starfsmannsins. Skortur á áminningu með þeim hætti sem segir í kjarasamningi leiði til að uppsögnin er ólögmæt.
Úrskurðinn í heild sinni er hægt að lesa á vef ráðuneytisins hér.
---
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Sveitarfélagið Vogar.