Ólöglegar aðgerðir tefja millilandaflug
Starfsfólk hjá öllum deildum innan IGS, sem sér um þjónustustörf í flugstöð Leifs Eiríkssonar, ætlar að leggja niður störf milli klukkan fimm og átta næsta sunnudagsmorgun. Meðal þeirra sem taka þátt eru afgreiðslufólk í innritun, starfsmenn í eldhúsi og hlaðmenn, en tilgangurinn er að mótmæla bágum kjörum, slæmri aðstöðu og miklu álagi. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.
Miklar annir eru í flugstöðinni á þessum tíma og er hætt við að flugferðum verði frestað eða aflýst ef þátttaka í mótmælunum verður mikil. "Við erum að skoða málið," sagði Gunnar Olsen, framkvæmdastjóri IGS, en vildi ekki tjá sig um hvernig fyrirtækið ætlaði að bregðast við mótmælunum.
Samkvæmt starfsmanni fyrirtækisins er fólk orðið langþreytt á að reyna að fá kjör sín bætt eftir hefðbundnum leiðum og sér ekki annað fært í stöðunni en að leggja niður störf í þrjá tíma á sunnudaginn. Fólk sé á lúsarlaunum undir miklu álagi og kjarasamningar hafi ekki breyst í tíu ár.
Í samtali við Ragnar Árnason, hjá Samtökum atvinnulífsins, sagði hann að klárlega væri um ólöglegar aðgerðir að ræða og litu samtökin þær alvarlegum augum. "Ef trúnaðarmenn stéttarfélaga taka þátt í boðun ólögmætrar vinnustöðvunar þá er stéttarfélagið sjálft ábyrgt og getur verið skaðabótaskylt. Við líðum ekki svona vinnubrögð og ef meiri háttar tjón hlýst af þessum aðgerðum verður skoðað hvort stéttarfélagið eða starfsmenn sjálfir séu bótaskyldir." Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, segir að verkalýðsfélagið styðji ekki mótmælin og líti á þau sem ólöglegt verkfall.
Fjölmiðlafulltrúi Icelandair sagði að fyrirtækið vonaðist til þess að úr þessum málum leystist áður en til vinnustöðvunar kæmi, en vildi að öðru leyti ekkert segja um málið.