Ólögleg losun spilliefna á Varnarsvæðinu
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta hefur afísunarefni sem notað er til varnar ísingu á flugvélum verið hellt niður í miklu magni á veginn við Stafnes innan varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli. Heimildir Víkurfrétta herma að þrír bílar sem notaðir eru við afísingu flugvéla á Keflavíkurflugvelli hafi verið losaðir á svæðinu í gærkvöldi og í morgun. Afísunarefni er spilliefni og er í raun um frostlög að ræða. Víkurfréttir höfðu samband við Berg Sigurðsson mengunarvarnafulltrúa Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja í dag og var hann spurður um málið. Í kjölfarið fór Bergur á staðinn og staðfesti hann í samtali við Víkurfréttir að þarna hafi afísunarefni eða frostlegi verið hellt niður. Aðspurður sagði Bergur að losun afísingarefna með þessum hætti væri ólögleg. „Hér um ólöglega losun spilliefna að ræða og er mjög alvarlegt mál í sjálfu sér. Heilbrigðiseftirlitið mun skoða málið á næstu dögum.“