Ólögleg losun fiskúrgangs í Garðinum: brýtur í bága við þrjá lagabálka
Í Víkurfréttum sem komu út í gær eru sláandi myndir af fiskúrgangi sem hent hefur verið í sjóinn við bryggjusporðinn í Garði. Bergur Sigurðsson heilbrigðisfulltrúi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja segir að þarna sé greinilega um ólöglega losun að ræða og að þetta athæfi brjóti í bága við að minnsta kosti þrjá lagabálka. „Við höfum sent öllum fiskverkendum í Garðinum bréf þar sem við vekjum athygli þeirra á því að verknaður sem þessi er ólöglegur. Flestir fiskverkenda í Garðinum fara eftir öllum reglum, en greinilegt er að þar innan um eru svartir sauðir,“ sagði Bergur og aðspurður um hvort Helbrigðiseftirlitið muni hefja rannsókn á þessari losun svaraði Bergur því til að það væri vitað um hvaða fyrirtæki væri að ræða, en hann vildi ekki gefa upplýsingar um hvaða fyrirtæki væri um að ræða.