Öllum framkvæmdastjórum Reykjanesbæjar sagt upp
„Hryggur yfir þessari niðurstöðu,“ sagði Árni Sigfússon fráfarandi bæjarstjóri
Á aukafundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar síðdegis í gær var samþykkt að segja upp öllum framkvæmdastjórum sviða hjá Reykjanesbæ vegna breytinga á skipuriti bæjarins. Bæjarstjórnarfundurinn stóð í tæpa fjórar klukkustundir og var lítil sátt um málið.
Minnihluti sjálfstæðismanna var mjög ósáttur við þennan gjörning en hann lagði fram allt aðrar tillögur á bæjarráðsfundi sl. fimmtudag og ræddi m.a. þær útfærslur á bæjarstjórnarfundinum.
Árni Sigfússon fráfarandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagðist hryggur yfir þessari niðurstöðu meirihluta bæjarstjórnar en hingað til hafi sjálfstæðismenn reynt að vinna með nýja meirihlutanum. Hann sagði þetta á fésbókarsíðu sinni eftir fundinn sem hann reyndar sat ekki:
„En tillögur og ákvarðanir nýs meirihluta um breytt stjórnkerfi eru ekki skynsamlegar. Stjórnkerfið er ekki lengur mótað af þeim áherslum sem við börðumst fyrir í menningarmálum, atvinnumálum, íþrótta- og fræðslumálum. Ofan á þetta er nú tekin ákvörðun um að segja upp öllum framkvæmdastjórum bæjarins. Þarna er fólk sem hefur unnið af fullum heilindum fyrir bæjarfélagið óháð því hverjir voru við pólitískan stjórnvöl. Þau hafa unnið frábært verk á miklum umbreytingatímum. Í kjölfar meirihlutaskipta síðasta vor þurftu þau að fylgja eftir hörðum uppsögnum á samningum starfsmanna sinna. Þar voru starfsmenn sem höfðu lagt sig alla fram og þegar allt kemur til alls er þorri þeirra með laun svipuð og býðst hjá öðrum bæjarfélögum. En það þýddi að margir góðir starfsmenn hafa ákveðið að leita annarra starfa. Í kjölfar mjög erfiðrar vinnu við að framfylgja þessu er framkvæmdastjórunum nú sjálfum sagt upp störfum. Ég er því mjög hryggur yfir þessari niðurstöðu. Ég tel hana hvorki skynsamlega né sanngjarna.“
Böðvar Jónsson fór fyrir sjálfstæðismönnum á bæjarstjórnarfundinum. Hann sagði þetta eftir fundinn:
„Er fyrst og fremst sorgmæddur yfir þessari ákvörðun meirihlutans. Ef vilji hefði verið til hefði vel mátt semja við þá einstaklinga sem breytingin tekur til um nýtt hlutverk og starfssvið en aðrir hefðu haldið sínum störfum þrátt fyrir nýtt skipurit. Ekkert liggur fyrir um hvort breytingin leiðir til sparnaðar fyrir sveitarfélagið.“
Frétt vf.is sl. mánudag um breytingar á skipuriti Reykjanesbæjar.