Öllum brögðum og ofbeldi beitt gegn stofnun félagsins
Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis fagnar 90 ára afmæli. Löng og ströng barátta en skilað miklu, segir formaður félagsins.
„Öll barátta verkalýðshreyfingunnar hefur verið löng og ströng en skilað miklu,“ segir Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, en félagið varð 90 ára afmæli 28. desember.
Hvers er helst að minnast á 90 ára afmæli VSFK?
„Það er mikilvægt að minnast þeirra sem á undan okkur komu. Þeirra sem leiddu baráttuna á árum áður – og VSFK hefur tekið þátt í þeirri baráttu. Þau réttindi sem við höfum á vinnumarkaði, s.s. fæðingarorlof, veikindaréttur, réttur til atvinnuleysisbóta og fleira, kom ekki að sjálfum sér.“
Þegar þú rýnir í söguna, hvernig var aðdragandinn og hvernig gekk að stofna félagið á sínum tíma?
„Verkalýðsfélag var fyrst stofnað í Keflavík 1931. Atvinnurekendur neituðu þó að viðurkenna það félag og neitaðu að semja við það. Það gekk ekkert áfallalaust að stofna félagið. Eftir tvær misheppnaðar tilraunir þar sem önnur endaði á að félagsmenn voru þvingaðir til að leggja félagið niður og hin á sama veg með mannráni að auki tókst loksins að stofna félagið og halda því gangandi. Það var því mikið sem gekk á og þurfti hugaða menn til verka því öllum brögum var beitt til að koma í veg fyrir stofnun, jafnvel ofbeldi.“
Fyrir hverja var félagið hugsað?
„Upphaflega var félagið stofnað fyrir verkamenn og konur og megin tilgangur að semja um kaup og kjör landverkafólks og sjómanna og gæta að þeirra hagsmuna.“
Hvernig er staðan í dag, hvað eru margir félagar og hvernig er starfsemin?
„Í dag eru félagsmenn um 4.500 og vinna mjög fjölbreytt störf. Allt frá umönnun til sjómannsstarfa. Starfsemin hefur tekið miklum breytingum í gegnum árin og nokkur félög sameinast því upprunalega. Þar af leiðandi þurfti t.d. að breyta nafni félagsins. Meira en helmingur félagsmanna er nú af erlendu bergi brotinn og þarf að aðlaga starfsemina og þjónustuna að því.
Við erum sífellt að bæta við þjónustuna og bæta við fleiri þjónustuþáttum. Eins erum við að vinna í því að reyna að gera félagsmenn virkari í starfinu og fjölga trúnaðarmönnum. Við erum að nýta okkur tæknina til að koma upplýsingum betur út til félagsmanna og eins að efla vinnustaðaeftirlit og fræðslu til félagsmanna.“
Tímamótunum verður fagnað í húsakynnum félagsins að Krossmóa 4 í Reykjanesbæ 12. janúar kl. 17–19, á 5. hæð. Í boði verða léttar veitingar og tónlist.