Öll rök séu fyrir flutningi Landhelgisgæzlunnar til Keflavíkur
Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, telur öll rök vera fyrir því að höfuðstöðvar Landhelgisgæzlunnar verði fluttar til Keflavíkur. Forstjóri gæslunnar segir hugmyndirnar vel þess virði að skoða vandlega. Þessar hugmyndir gætu jafnvel falið í sér aukið hlutverk á sviði varnarmála dragi Bandaríkjaher enn saman seglin hér á landi.
Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, er einn þeirra sem talar fyrir því að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkur. Eins telur Hjálmar að höfuðstöðvar Landhelgisgæzlunnar eigi að flytjast til Keflavíkur og taka við varnar- og öryggisþáttum ef Bandaríkjamenn ákveða að minnka eða hætta starfsemi sinni þar. Þetta kom fram á opnum fundi sem Hjálmar boðaði til á veitingahúsinu Ránni í síðustu viku.
Hjálmar segist telja að öll rök séu fyrir því að höfuðstöðvar Landhelgisgæzlunnar verði í Keflavík, bæði vegna þess að þar sé flugvöllur og þá séu skip Landhelgisgæzlunnar nær vettvangi í Keflavík, yst í Faxaflóa frekar en að vera innst. Þar að auki sé þyrlusveit varnarliðsins staðsett í Keflavík.
Hjálmar telur lag að nálgast þetta núna þegar viðræður við Bandaríkjamenn um framtíð varnarstöðvarinnar standa yfir. Hann segir að það liggi fyrir pólitískur vilji af hálfu Bandaríkjamanna að hér á landi verði varnarstöð og nú eigi að nálgast það með þeim hætti að Landhelgisgæzlan með sínu öfluga starfsliði taki að sér reksturinn á varnarstöðinni á grundvelli samnings við Bandaríkin.
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæzlunnar, segir í samtali við Stöð 2 í kvöld að það sé vel þess virði að skoða hugmyndir Hjálmars, sérstaklega í tengslum við varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.