Öll kennsla í fjarnám hjá Keili vegna samkomubanns
Keilir á Ásbrú mun brátt færa alla kennslu skólans yfir í fjarnám eins og frekast er kostur frá og með miðnætti mánudagsins 16. mars næstkomandi. Um er að ræða fordæmalausa ráðstöfun en framkvæmdastjórn Keilis hefur undirbúið verkefnið vel um nokkurt skeið. Við erum mjög vel í stakk búin til þess að takast á við þessa áskorun og hafa áætlanir okkar verið sendar menntamálaráðuneyti. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Keili.
„Við munum öll leggjast á eitt til þess að tryggja góða þjónustu við nemendur okkar á meðan á þessari tímabundnu ráðstöfun stendur. Skólinn mun efla upplýsingaflæði til kennara og nemenda eins og frekast er kostur og bið ég ykkur að fylgjast vel með tilkynningum á heimasíðu skólans, tölvupóstum og skilaboðum á samskiptamiðlum.
Hjá Keili starfar frábær hópur kennara og starfsfólks sem mun gera sitt allra besta við þessar aðstæður.
Ég vil hvetja nemendur okkar til dáða í fjarnáminu og óska þeim góðs gengis. Áfram Keilir!,“ segir Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis í tilkynnngunni frá skólanum.