Öll dekk skorin
Það var ófögur sjón sem blasti við starfsmönnum Áhaldahúss Sandgerðisbæjar þegar þeir mættu til vinnu í gær, en búið var að skera á dekk allra tækja á svæðinu.
Áætlað er að tjónið sé um 500-600 þúsund krónur. Það vill til að nýju gröfurnar eru geymdar innan dyra svo ekki náðist að vinna skemmdarverk á þeim, en slíkt tjón hefði getað hlaupið á milljónum.
Þegar starfsmenn hættu störfum á föstudaginn s.l., þá voru öll dekk í lagi svo skemmdarverkin hafa verið unnin nú um helgina.
Miðað við stærð fótsporanna í kringum eina kerruna má ætla að ekki sé um fullorðinn einstakling að ræða. Þeir sem kunna að hafa einhverjar upplýsingar um málið eru beðnir að láta lögregluna á Suðurnesjum vita.
www.245.is greinir frá. Mynd/245.is