Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óljóst með menntun lögreglumanna
Fulltrúar Keilis hafa lýst yfir áhuga á að taka að sér að mennta lögreglumenn í samstarfi við HÍ.
Fimmtudagur 30. júní 2016 kl. 11:50

Óljóst með menntun lögreglumanna

- Seinagangur óþægilegur fyrir alla, segir framkvæmdastjóri Keilis

„Við skiljum ekki þennan seinagang. Við bara bíðum og vitum ekki meir. Málið er núna hjá menntamálaráðherra,“ segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis í samtali við Víkurfréttir. Keilir sótti um að mennta lögreglumenn í samstarfi við Háskóla Íslands en Lögregluskólinn verður formlega lagður niður 30. september næstkomandi. Greint er frá því á vef Vísis að enn sé ekki búið að taka ákvörðun um það hvaða skóli taki við kennslunni.

Samþykkt var á Alþingi 1. júní síðastliðinn að færa lögreglunám á háskólastig og höfðu fulltrúar Háskólans á Bifröst, Keilis, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands lýst yfir áhuga á að taka að sér menntun lögreglumanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, segir ljóst að óvissan sé óþægileg fyrir alla sem að málinu koma. Hann segir það jafnframt skoðun sína að það liggi ljóst fyrir að aðstaðan við Ásbrú sé eins og best verður á kosið. „Svo kemur reynsla Keilis af fjarnámi til góða en við erum leiðandi á því sviði,“ segir hann.

Hjálmar segir að verði Keilir og Háskóli Íslands fyrir valinu verði brugðist hratt við svo námið geti hafist í haust. „Við höfum gengið með þá hugmynd í maganum í níu ár, frá stofnun Keilis, að vera hér með góða öryggisakademíu. Við sjáum fyrir okkur ýmis samlegðaráhrif við skyldar greinar. Má þar nefna nám fyrir öryggisverði, sjúkraflutningamenn, slökkviliðsmenn, fangaverði og tollverði,“ segir Hjálmar.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, var formaður starfshóps um endurskoðun á lögreglunámi. Hann segir því ekki að leyna að hans skoðun sé sú að besta aðstaðan á landinu til verklegrar kennslu lögreglumanna sé á Suðurnesjum. „Ég hef rætt um það við fulltrúa hinna háskólanna að sama hvaða skóli mun á endanum verða fyrir valinu, þá mæli ég með því að sá skóli verði í samstarfi við Keili um að nýta aðstöðu á Ásbrú. Þannig gæti verkleg kennsla mikið til farið fram þar.“ Vilhjálmur nefnir að til að mynda sé Landhelgisgæslan staðsett þar. „Sama hver niðurstaðan verður þá sé ég fyrir mér aukið samstarf björgunaraðila varðandi æfingar og þjálfun á flugvallarsvæðinu.“