Óljóst hvenær tvöfaldað verður að flugstöðinni
Ekki liggja fyrir tímasettar áætlanir um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar frá Fitjum í Innri-Njarðvík að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þetta kemur í svari Innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Í samgönguáætlun fyrir árin 2011 til 2022 er áætlaður kostnaður tvöföldun Reykjanesbrautar samtals sex milljarðar króna. Þar verður lokið við tvöföldun Reykjanesbrautar Hafnarfjarðarmegin en kaflinn er 8 km að lengd. Hins vegar er óljóst hvenær og hvort farið verður út í tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum en umferð minnkar talsvert eftir að komið er að Fitjum í átt að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Guðlaugur Þór spurði einnig út í framkvæmdir við uppsetningu á vegriði á Reykjanesbraut. Í svari Innanríkisráðherra kemur fram að áætlanir Vegagerðarinnar miðast við að ljúka uppsetningu vegriða á Reykjanesbraut í Garðabæ á árinu 2013 og hefja það ár uppsetningu á Reykjanesbraut sunnan Straumsvíkur. Miðað við fjárveitingar má gera ráð fyrir að lokið verði uppsetningu vegriðs í vegmiðju suður að Fitjum á árunum 2015–2016.
Kostnaðaráætlun miðast við einfalt víravegrið að mestu leyti. Einstaka kafli gæti þó verið með tvöföldu vegriði vegna hæðarmunar á milli akbrauta. Laga þarf innri fláa á nokkrum köflum. Heildarkostnaður við uppsetningu vegriðsins er áætlaður um 350 millj. kr.
Vegagerðin hefur ekki áætlað að setja upp sérstaka veglýsingu við syðri akbraut Reykjanesbrautar. Ekki hefur heldur verið áætlað að skipta út ljósastaurum við nyrðri akbraut. Ljósastaurarnir eru eftirgefanlegir af viðurkenndri amerískri gerð. Þeir voru settir upp eftir útboð árið 1995. Elstu staurarnir eru frá árinu 1996 og er algengur endingartími slíkra staura um 30–40 ár. Ekið hefur verið á um 150–200 staura. Alvarleg slys eru fá samkvæmt svari Innanríkisráðherra.