Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óljóst hvaða efni koma frá kísilverksmiðju
Íbúar í Reykjanesbæ hafa lýst sviða í nefholi og hálsi, óþægindum við öndun, auknum astma einkennum, herpingi í hálsi og sviða í augum. VF-mynd/hilmarbragi
Fimmtudagur 23. febrúar 2017 kl. 12:48

Óljóst hvaða efni koma frá kísilverksmiðju

- Skerðing á lífsgæðum sem ekki var gert ráð fyrir

Fulltrúar Umhverfisstofnunar telja ljóst að greina þurfi hvaða efni gætu verið í útblæstri United Silicon í Helguvík, sérstaklega þegar eitthvað kemur upp á við rekstur ofns verksmiðjunnar. Í bréfi sem Umhverfisstofnun sendi United Silicon í gær segir að áformað sé að fram fari verkfræðileg úttekt á rekstri og hönnun verksmiðjunnar en við rekstur hennar hafa ítrekað orðið mengunaróhöpp með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa á svæðinu. Umhverfisstofnun telur ljóst af kvörtunum íbúa að dæma að þau áhrif og einkenni sem fólk lýsi feli í sér skerðingu á lífsgæðum sem ekki var gert ráð fyrir í aðdraganda leyfisveitingar til kísilverksmiðjunnar.

„Verkfræðileg úttekt myndi leiða í ljós úrbætur sem þyrfti að gera og meta hvaða efni er um að ræða. Við höfum áhyggjur af því að það séu að myndast efni sem ekki var gerð grein fyrir í mati á umhverfisáhrifum né í umsóknarferlinu,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun. Markmiðið með úttektinni væri að koma í veg fyrir að snefilefnin myndist. „Ég á fremur von á því að út úr svona úttekt komi tillögur úttektaraðila til okkar um að gera kröfur um breytingar á mengunarvarnabúnaði eða verklagi þannig að það væri hægt að fyrirbyggja að þessi efni væru að myndast. Ekki að út úr þessu kæmi eingöngu krafa um að mæla mengun,“ segir hún.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í bréfi Umhverfisstofnunar sem sent var til United Silicon í gær segir að þegar timbur brenni við lágt hitastig og ófullkomnar brunaaðstæður myndist mun fleiri loftmengunarefni heldur en þegar ofninn er á fullu vinnsluhitastigi. „Þetta á enn frekar við þegar timbrið er matað rakt inn í ofninn eins og verið hefur hjá United Silicon. Við þessar aðstæður myndast ekki aðeins hefðbundin mengunarefni eins og svifryk, NOx og SO2, en gert var grein fyrir þeim í matsskýrslu og þau eru mæld í umhverfi verksmiðjunnar, heldur geta hugsanlega myndast fjölmörg önnur efni. Sum þessara efna geta valdið ertingu þótt styrkur þeirra sé mjög lágur. Íbúar í Reykjanesbæ hafa meðal annars verið að lýsa sviða í nefholi og hálsi, óþægindum við öndun, auknum astma einkennum, herpingi í hálsi og sviða í augum,“ segir í bréfinu.

Starfsemi í verksmiðjunni hófst í október síðastliðnum og síðan í nóvember hefur Umhverfisstofnun borist fjöldi ábendinga um reyk- og lyktarmengun. Í bréfinu segir að í fyrstu hafi verið litið svo á að um byrjunarörðugleika væri að ræða. Fátt bendi hins vegar til að umtalsverðar umbætur hafi orðið. Við eftirlit 17. febrúar síðastliðinn kom í ljós að tengiliður Umhverfisstofnunar var ekki upplýstur um að lyktarmengun 15. febrúar hefði orðið vegna þess að slökkt var á ofni.

[email protected]

Myndband frá 12. janúar síðastliðnum þegar töluverðan reyk lagði frá kísilverksmiðju United Silicon

 

Tengd frétt: Hugsanlegt að rekstur kísilverksmiðju verði stöðvaður tímabundið