Olíuþjófar gripnir glóðvolgir
Lögreglunni á Suðurnesjum var um helgina tilkynnt um óeðlilegar mannaferðir við húsnæði fyrirtækis í Reykjanesbæ. Vísbendingar leiddu til þess að lögreglumenn höfðu fljótlega upp á tveimur karlmönnum sem grunaðir voru um að hafa verið að keppast við að stela olíu úr tanki steypubifreiðar í eigu fyrirtækisins þegar styggð kom að þeim og þeir höfðu sig á brott. Við steypubílinn fundust þrír brúsar, einn þeirra hálfur af olíu og tveir tómir. Að auki voru slöngur á vettvangi. Mennirnir voru yfirheyrðir og látnir lausir að því loknu.
Þá var lögreglu tilkynnt um innbrot og þjófnað hjá Verktakasambandinu í Reykjanesbæ um helgina. Þaðan var stolið tveimur tölvuskjám og tölvuturni. Málið er í rannsókn.