Olíuslóð frá Innri -Njarðvík til Keflavíkur og fimm bíla árekstur
Olía lak af strætisvagni á föstudaginn. Það nú kannski ekki frásögu færandi nema fyrir það að lekinn náði alla leið frá Innri-Njarðvík upp að Reykjaneshöll!
Lögreglan fór fyrst á vettvang. Þegar að hún var að athuga aðstæður við Hjallaveg/Njarðarbraut vildi svo illa til að úr varð fimm bíla árekstur. Starfsmenn Brunavarna Suðurnesja fóru fyrst á fyrrgreind gatnamót til þess að þrífa upp olíulekann og þegar því var lokið þurftu þeir að ná í stærri tæki eða tankbílinn til þess að halda verkinu áfram. Byrjað var við Fitjarnar og Njarðarbrautin þrifin langleiðina að Ytri-Njarðvíkum Því næst var farið að Reykjaneshöllinni og planið þrifið. Strætisvagninn var þá orðinn olíulaus. Verkið tók á aðra klukkustund og urðu lítilsháttar umferðartafir á meðan. Ökumenn sýndu mikla þolinmæði og voru kurteisir í alla staði á meðan verkið var unnið, segir á vef Brunavarna Suðurnesja.