Olíuleki á Grindavíkurvegi getur mengað vatnsból Suðurnesja
Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar tekur undir áhyggjur Heilbrigðisnefndar Suðurnesja af þeirri hættu sem að vatnsbólum Suðurnesjamanna stafar vegna bílaumferðar á Grindavíkurvegi og leggur áherslu á að lausn verði fundin hið fyrsta.
Heilbrigðisnefnd Suðurnesja bókaði fyrr á árinu og lýsti áhyggjum af þeirri hættu sem vatnsbólum Suðurnesjamanna í Lágum stafar af bílaumferð á Grindavíkurvegi. Kemur m.a. fram að ef grunnvatn mengast t.d. vegna olíuleka af völdum bílslyss, eru yfirgnæfandi líkur á að vatnsbólin spillist innan fárra vikna.
Nefndin skorar á sveitarfélög á Suðurnesjum og hlutaðeigandi veitufyrirtæki að hefja nú þegar undirbúning að flutningi vatnsbólanna á öruggari stað.
Bæjarráð Garðs hefur einnig fengið málið til afgreiðslu, eins og áður hefur verið greint frá. Það þakkar Heilbrigðisnefnd Suðurnesja fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Jafnframt hvetur bæjarráð Garðs til þess að rannsóknum og vinnu við að opna ný vatnsból verði hraðað, en málið hefur m.a. verið í vinnslu hjá Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja og viðkomandi veitufyrirtæki. Bæjarráð Garðs leggur áherslu á hve mikilvægt hagsmunamál er um að ræða fyrir öll Suðurnes, íbúa og atvinnustarfsemi.